Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:00:11 (3701)

1997-02-19 14:00:11# 121. lþ. 73.2 fundur 318. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hins vegar sagði hann í lok ræðu sinnar að hluti af svarinu væri eftir og ég býst við að það sé sá hluti sem snýr að afstöðu ráðuneytisins til þessara mála. Ég þakka einnig þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls í umræðunni. Ég tek undir það sem hv. formaður samgn. sagði að ein af þeim aðgerðum sem kæmu til greina í þessum málum væri skattalegs eðlis. Hins vegar hef ég þá trú að miðað við þessar aðstæður, miðað við þau viðskipti sem þessir aðilar eru að missa þá verði að koma til einhvers konar aðgerðir ríkisvaldsins til að reyna að tryggja þessa starfsemi í sessi. Því að þó að vissulega sé farþegafjöldinn með þessum aðilum e.t.v. minnkandi og einkabíllinn sé notaður í ríkum mæli þá er þetta þó afar mikilvægur samgönguþáttur á landsbyggðinni. Það er ekki nóg að færa áhyggjur sérleyfishafa til bókar eins og ráðherra hafði eftir þessari skipulagsnefnd fólksflutninga. Það verða að koma aðgerðir til í þessu og auðvitað þarf þingið og framkvæmdarvaldið að vinna að því að fá úrlausn í þessum málum. Ég bíð eftir seinni hluta svars ráðherrans. Ég veit að hann kemur inn á það þá hvaða afstöðu ráðuneytið hefur í þessum efnum.