Vatnsorka utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:05:16 (3704)

1997-02-19 14:05:16# 121. lþ. 73.3 fundur 316. mál: #A vatnsorka utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:05]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hversu mikið sé hægt að virkja af vatnsorku utan miðhálendisins svo hagkvæmt sé. Ég vil í svari mínu skipta landinu í þrjú meginsvæði. Skiptingin er eftirfarandi:

1. Svæði sem einhver orkuvinnsla fer þegar fram á, hvort sem það er á eða utan miðhálendisins.

2. Svæði utan miðhálendisins sem ekki eru nýtt.

3. Svæði á miðhálendinu sem ekki eru nýtt.

Virkjanakostum er hér skipt í þrjá flokka eftir hagkvæmni:

Í fyrsta flokk eru settir virkjanakostir þar sem orkukostnaður er undir 20 kr. á kwst. á ári en þar undir eru t.d. virkjanir í efri hluta Þjórsár sem hagkvæmt er talið að ráðast í á næsta áratug.

Í öðrum flokki eru virkjunarkostir þar sem orkukostnaður er á bilinu 20--25 kr. á hverja kwst. Efri mörkin í þessum flokki eru sett u.þ.b. 50% hærri en orkukostnaður við væntanlega virkjun á Sultartanga.

Í þriðja flokknum eru virkjunarkostir þar sem orkukostnaður er hærri en 25 kr. á kwst. á ári eða þá að virkjunarkostnaðurinn er ekki þekktur eins og er í nokkrum tilfellum.

Í svari þessu verður ekki gerð tilraun til að meta hvort einstökum virkjunarkostum kann að verða hafnað eða tilhögun þeirra breytt vegna röskunar á umhverfi. Á miðhálendinu er upprunninn meiri hluti vatnsorku landsins, utan þess er nýtanlega vatnsorka á láglendi landsins, á Vestfjarðakjálkanum og á norðausturhorni landsins. Alls er talið tæknilega unnt að virkja um 41.000 gwst. á ári.

Á því svæði þar sem orkuvinnslan er hafin er búið að virkja 4.900 gwst. á ári. Á þessu svæði væri hægt að auka orkugetuna um 6.900 gwst. á ári sem skiptist þannig að í Þjórsá eru 3.800 gwst. á ári, um 120 gwst. í Blöndu og 3.000 í Jökulsá í Fljótsdal. Af Þjórsárvirkjunum eru um 1.700 gwst. á ári þegar í byggingu eða á útboðsstigi og er þá Sultartangi meðtalinn. Þær 2.000 gwst. á ári sem þá eru eftir eru hagkvæmar og að mestu flokkaðar, eins og ég greindi áðan, í fyrsta flokk. Fljótsdalsvirkjun sem talin er í þessum flokki yrði afar hagkvæm og yrði þess vegna flokkuð í fyrsta flokk.

Vatnsorka á láglendi er mest á Suðurlandsundirlendinu. Þar af er mest orka í Þjórsá þar sem virkja má tvær til þrjár stórvirkjanir, yfir 5.000 gwst. á ári, svo sem við Núp, Búðafoss og Urriðafoss. Alls eru þessir virkjunarkostir taldir geta gefið um 2.100 gwst. á ári, þar af eru 1.400 gwst. taldar vera í hagkvæmnisflokki tvö en 700 gwst. mundu líklega flokkast í hagkvæmnisflokk þrjú.

Nokkrar smávirkjanir eru hugsanlegar í viðbót á Suðurlandsundirlendinu en væntanlega mundu þær flokkast í þriðja flokk og teljast til óhagkvæmra virkjunarkosta. Þá má nefna virkjunarstaði í dölum á Vestur- og Norðurlandi, svo sem í Hvítá í Borgarfirði, Blöndu og Þistilfjarðaránum. Í Héraðsvötnum og á Skjálfandafljóti er hægt að virkja eitthvað stærra.

Á Vestfjarðahálendinu eru tvö virkjunarsvæði. Annað er Glámuhálendið þar sem virkja má um 450 gwst. á ári. Þeir virkjunarkostir mundu flokkast í hagkvæmnisflokk þrjú. Hitt er Ófeigsfjarðarheiðin þar sem virkja mætti um 1.200 gwst. á ári og sá virkjunarkostur mundi líklega flokkast í hagkvæmnisflokk tvö.

Á svæðum á láglendi þar sem nýting er ekki hafin er talið að unnt sé að vinna um 9.100 gwst. á ári. Þar af er talið að um 570 gwst. á ári mundu fara í hagkvæmnisflokk eitt, 3.060 í tvö og 5.500 í hagkvæmnisflokk þrjú.

Á miðhálendinu mætti framleiða um 19.000 gwst. á ári. Þar af er rúmlega helmingur sem vatnsafl sem ekki hefur verið nýtt. Um það bil 9.000 gwst. á ári mundu fara í hagkvæmasta flokkinn, þ.e. fyrsta flokk, 2.000 í þann næsthagkvæmasta og 8.000 gwst. í þann þriðja. Alls er talið að tæknilega sé unnt að auka orkuvinnsluna um nálega 16.000 gwst. á ári á svæðum þar sem nýting er hafin eða utan miðhálendisins. Í hagkvæmasta flokknum eru um 7.400 gwst. á ári. Þar af eru tæplega 1.800 í byggingu eða á útboðsstigi. Í þessum flokki er einnig Fljótsdalsvirkjun með 3.000 gwst. á ári. En eins og áður hefur komið fram er hún talin í þeim flokki sem hagkvæmastur er.

Rétt er að ítreka að í þessum tölum hefur ekki verið tekið tillit til einstakra virkjanakosta sem kunni hugsanlega að verða hafnað af umhverfisástæðum.