Vatnsorka utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:16:26 (3709)

1997-02-19 14:16:26# 121. lþ. 73.3 fundur 316. mál: #A vatnsorka utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:16]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég held ég hafi tekið það rækilega fram í svari mínu áðan að í þeim möguleikum sem þarna eru taldir er ekki tekið tillit til þess að hugsanlega geta auknar kröfur í umhverfismálum haft einhver áhrif. Ég er sannfærður um að þó við lítum ekki til baka nema fimm ár þá hafa þau virkjanaáform sem menn höfðu þá uppi að einhverju leyti breyst þó ekki væri nema bara á undanförnum vikum og mánuðum þannig að í þessum efnum held ég að hlutirnir geti tekið miklum breytingum á tiltölulega skömmum tíma.

Ég hef hins vegar óskað eftir því við Orkustofnun að fram fari endurskoðun á möguleikum okkar til þess að nýta orkulindirnar, þ.e. jarðvarmann og vatnsaflið með tilliti til þess að við gerum sífellt meiri og meiri kröfur í umhverfismálum þannig að ég á von á því að Orkustofnun fari í þetta verk mjög fljótlega og því verði hraðað.

Ég tek undir það með hv. þm. Tómasi Inga Olrich að það er mjög mikilvægt að menn stilli ekki atvinnugreinunum upp hverri andspænis annarri, hugsi þetta heldur út frá því hvernig við getum nýtt allar þær auðlindir sem við eigum, hafið, orkuna og mannauðinn líka. Til þess að hægt sé að samhæfa og koma á ákveðnu skipulagi þar sem menn viti fyrir fram hvaða atvinnugreinar sé skynsamlegt að byggja upp á hverjum stað með tilliti til landkosta og með tilliti til staðsetningar auðlindanna þá hef ég óskað eftir því að fá tilnefningu frá einstökum undirstofnunum einstakra ráðuneyta og setja af stað vinnuhóp til þess að fara yfir landið, þar á meðal hef ég óskað eftir tillögum frá Byggðastofnun í þessum efnum, fara yfir landið og kortleggja þau landsvæði þar sem tiltekin atvinnustarfsemi hentar sérstaklega vel með tilliti til þeirra aðstæðna sem þar eru og með tilliti til þess hvar auðlindirnar eru staðsettar. Þetta verk verður nú farið í og er mikilvægt að verði unnið hratt.