Jarðgufuvirkjanir utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:25:18 (3712)

1997-02-19 14:25:18# 121. lþ. 73.4 fundur 317. mál: #A jarðgufuvirkjanir utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér sýnist að honum hafi tekist ágætlega upp með erfitt verkefni. Ég hef hins vegar oft velt því fyrir mér þegar verið er að tala um orkuvinnslu og ferðaþjónustu hvort einmitt virkjun á jarðgufuorku sé ekki vænlegri kostur til þess að láta það fara saman við ferðaþjónustuna. Það er einmitt svo að þær stærri virkjanir sem við höfum ráðist í hafa orðið að stöðum sem ferðamenn sækja heim og vilja skoða og þetta hefur því getað farið saman hönd í hönd. Við verðum hins vegar að gæta að því að jarðgufuorkan er ekki óendanleg eins og kom fram í svari ráðherrans. Við þurfum því að ganga vel um hana eins og hverja aðra takmarkaða auðlind sem okkur er falin. En það á reyndar að hluta til líka við um vatnsaflsvirkjanirnar að þó þær séu, þegar búið er að byggja virkjanirnar, næstum því eilífðarvélar þá eru möguleikarnir til virkjunar takmarkaðir og við þurfum líka að huga að því að komandi kynslóðir hafi einhverja orku til þess að virkja í framtíðinni. Það hefur stundum verið sagt: Hvernig værum við stödd í dag ef landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hefði byrjað á því fyrir rúmum ellefu hundruð árum að virkja alla virkjanlega orku á Íslandi og það væri ekkert eftir fyrir okkur í dag? Þetta er okkur til umhugsunar. Við þurfum að fara vel með þessar auðlindir eins og aðrar þær auðlindir sem við höfum með höndum og nýta þær í góðri samvinnu milli allra atvinnugreina landsins.