Samanburður á launakjörum iðnaðarmanna

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:39:16 (3718)

1997-02-19 14:39:16# 121. lþ. 73.5 fundur 329. mál: #A samburður á launakjörum iðnaðarmanna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Ég vil jafnframt vara hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Lúðvík Bergvinsson við að ræða um þetta mál af jafnmiklu kæruleysi og við urðum vitni að áðan. Orð eins og látbragðsleikur, leikrit og fleira í þeim dúr. Þetta er nefnilega háalvarlegt mál. Þetta snertir efnahagsstefnu þjóðar, þetta snertir fyrirbrigði sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hlýtur að hafa heyrt um og er kaupmáttur og launamunur. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að launamunurinn er 43%. Það er reynsla okkar af stóriðjulaunum í samanburði við þau laun sem annars tíðkast á höfuðborgarsvæðinu í röðum iðnaðarmanna. Það eitt er mikil frétt. Það hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um hvernig á þessu stendur. Það vekur líka athygli að svo virðist vera að í löndum OECD virðist þetta einmitt vera meginreglan að þar sem erlendir fjárfestar koma sér upp fabrikkum í löndum virðist launamunur vera á svipuðu róli, þ.e. þau laun sem erlendir fjárfestar greiða virðast hærri en gengur og gerist í þeim löndum sem þeir fjárfesta í. Það er mjög merkilegt. Það er ekkert leikrit, það er enginn látbragðsleikur. Það er umhugsunarefni og mál sem við þurfum að taka til skoðunar. Getur verið að við höfum verið um of einangruð í efnahagslegu tilliti hvað varðar erlenda fjárfestingu? Niðurstaðan hér heima, eins og í löndum OECD, bendir eindregið til þess. Þetta er ekki látbragðsleikur, þetta er alvarlegt. Það skyldi þó ekki vera að samkeppnin við erlenda fjárfesta um vinnuafl verði það sem dregur kjarabætur til launafólks? Það er spurningin sem við þurfum að svara.