Samanburður á launakjörum iðnaðarmanna

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:44:03 (3721)

1997-02-19 14:44:03# 121. lþ. 73.5 fundur 329. mál: #A samburður á launakjörum iðnaðarmanna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:44]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er gaman að horfa hér á alþýðubandalagsmenn í stólnum eins og vant er. Nú er aðalvandamálið hvernig fyrirspurnin er tilkomin. Það er eins og það sé höfuðatriðið. Ég hefði nú haldið að það væri frekar erindi fyrir alþýðubandalagsmenn að ganga hér í stól og gleðjast yfir góðum kjörum (SJóh: Gerðum við það ekki?) iðnaðarmanna í Straumsvík. En þetta sýnir bara eitt, að sú stefna sem ríkisstjórnin rekur í uppbyggingu atvinnumála, að byggja á auðlindunum, nýta þær til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði, það eru þau fyrirtæki sem greiða hærri laun en almennt eru greidd fyrir sambærileg störf. Þess vegna hlakka ég til þess þegar hingað inn á Alþingi kemur frv., vonandi fljótlega, sem gerir ráð fyrir því að halda áfram uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu að Alþb. standi að því af því að það eru greidd há laun í þessum fyrirtækjum. Ég bíð spenntur eftir þeirri umræðu.

Til að svara hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þá kemur það fram í því svari sem hér var dreift að þær upplýsingar um launakjör iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu og niðurstöður kjararannsóknarnefndar eru byggðar á úrtakskönnun. Úrtakið nær að jafnaði til 10--12 þús. einstaklinga sem starfa hjá 100 fyrirtækjum. Upplýsingarnar eru sóttar í launabókhald fyrirtækja og gefa því nákvæmar upplýsingar um greidd laun og vinnustundir viðkomandi einstaklinga. Ég held að þetta atriði í því skriflega svari sem hér var dreift svari nákvæmlega þeirri spurningu sem hér var leitað svara við.

Ef hv. þm. Margrét Frímannsdóttir ber fram fyrirspurn um launakjör ríkisstarfsmanna þá verður henni auðvitað svarað. En það var ekki beðið um svar við þeirri spurningu í þeirri fyrirspurn sem hér liggur fyrir. En þegar hv. þm. kemur með þá fyrirspurn verður henni vitanlega svarað úr þessum ræðustól.