Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:00:03 (3733)

1997-02-19 16:00:03# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:00]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að launakjör bankastjóra og hvernig þau laun eru uppbyggð séu gagnrýnd meðal almennings. Þetta á hins vegar ekki að koma hv. alþm. sem setið hafa hér í nokkur ár á óvart því þetta er sú aðferð sem þeir ákváðu sjálfir í lögum um viðskiptabanka. Í því frv. kom m.a. fram á sínum tíma að þáv. viðskrh. óskaði eftir því að ekki yrði heimilt að greiða bankastjórum sérstaklega fyrir aðra vinnu en þeir vinna sem bankastjórar nema til kæmi sérstakt leyfi ráðherra. Það var fellt út úr frv., m.a. með þeim rökstuðningi að bankaráðsmenn væru kjörnir af Alþingi, fulltrúar Alþingis, og þeim væri fyllilega treystandi til að ákveða þetta. Því geta alþingismenn, sem staðið hafa að þessari afgreiðslu, ekki komið eins og af fjöllum ofan og sagt að þetta sé launakerfi sem þeir kannist ekki við. Þeir hafa staðið að þessu sjálfir. Ég hef reynslu af því að viðskrh. hefur enga möguleika á því að fá þessu breytt. Það eina sem hann getur gert er að ræða við forustumenn bankaráðanna og biðja þá um að endurskoða þessi launakjör og það var gert á sínum tíma. Það gerði bæði ég og núv. hæstv. viðskrh. en hvorugur höfum valdið til að breyta þessu.

Þetta vildi ég að fram kæmi, virðulegur forseti, að þessar ákvarðanir eru samkvæmt samþykkt Alþingis og rökstuddar með því að þingflokkar Alþingis kjósi þessa bankaráðsmenn og eigi að hafa alla möguleika á að fylgjast með því sem þeir gera.

Hins vegar verð ég, virðulegur forseti, að benda á annan hlut sem hefur verið að gerast og farið lágt og það er að ekki aðeins hafa hæstaréttardómarar komist upp með að ákveða sjálfir yfirvinnugreiðslur til sín heldur virðast þeir líka komast upp með að skipta um fulltrúa í Kjaradómi ef þeir eru ekki sáttir við niðurstöðu hans. Það sýnir sig kannski á því fordæmi að sitthvað er Jón og séra Jón.