Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:02:31 (3734)

1997-02-19 16:02:31# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:02]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Alþingi er hér að ræða laun níu einstaklinga. Mér þykir það frekar sérstakt. Við erum að ræða laun níu einstaklinga. Þar af eru sex sem meðhöndla allt sparifé landsmanna. Margir hafa orðið til að hneykslast á háum launum bankastjóra, vafalaust í leit að lýðhylli. Ég held okkur hér á Alþingi væri nær að ræða þau lágu laun sem verið er að bjóða ráðherrum ríkisstjórnar Íslands. Menn hafa verið að bera þetta saman en mér finnst við ættum frekar að tala um það hvernig við getum bætt hag ráðherranna þannig að þeir séu ekki nánast að borga með sér í þeim störfum sem þeir eru í núna.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að borga bankastjórum góð laun. Mér finnst 600 þús. kr. á mánuði fyrir bankastjóra í sjálfu sér ekki óeðlilegt enda held ég að ef menn geta ekki fengið þau laun úti á markaði ættu þeir ekki að vera bankastjórar. Þú færð það sem þú borgar fyrir, segir máltækið. Og það er mjög einfalt. Menn þurfa að borga fyrir það að fá almennilega þjónustu.

Það sem ég er hins vegar ósáttur við er uppbyggingin á launum bankastjóranna eins og þetta er núna. Það eru tiltölulega lág föst laun, ef menn geta notað það orð, og síðan hafa menn innan bankanna verið að leysa þetta með því að greiða fyrir setu í bankaráðum og í nefndum á vegum bankanna. Mér finnst það mjög óeðlilegt og ég fagna því sem viðskrh. sagði áðan að tekið hafi verið fyrir þetta núna.

Að lokum vil ég segja að mér finnst mjög óeðlilegt að greiða þremur mönnum fyrir yfirstjórn og ábyrgð á banka sem alls staðar annars staðar, alls staðar í einkarekstrinum er einum manni greitt fyrir. Þannig að ef menn eru að bera saman milljón króna laun í ríkisbanka núna þá er það í rauninni 3 millj. kr. eða svo sem verið er að greiða fyrir þetta starf sem einkareksturinn er að greiða fyrir 700--800 þús. kr. á mánuði, ekki milljón.