Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:07:00 (3736)

1997-02-19 16:07:00# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Starfskjör bankastjóra ríkisbankanna er enn eitt dæmið um þær ógöngur sem launakerfi ríkisins er komið í. Þrátt fyrir dágóð grunnlaun eða um 400 þús. kr. má ætla að heildartekjur þeirra séu oft nær 1 millj. kr. þegar sporslurnar svokölluðu eru taldar með. Það eru ýmis atriði sem vekja athygli í þessu sambandi. Hvers vegna njóta bankastjórar bæði alveg ótrúlegra sérkjara og allra annarra kjara sem hinn almenni bankastarfsmaður hefur eins og t.d. mánaðaruppbótar í desember? Eru einhver takmörk fyrir því hve margar launaðar sporslur bankastjórar mega taka sér? Fyrir hvað eru grunnlaunin hugsuð? Er það eðlilegt fyrirkomulag að bankaráðin sem ákveða laun bankastjóra þiggi laun sem er hlutfall af launum bankastjóra? Þetta eru grundvallarspurningar sem tímabært er að stjórnmálaflokkarnir og bankaráðin svari, ásamt þeirri spurningu hvort ábyrgð bankastjóra sé eða ætti ekki að vera í samræmi við starfskjörin. Því miður virðist svo ekki vera. Starfskjör bankastjóra eru dæmi um pólitíska spillingu sem verður að uppræta. Kvennalistinn hefur fyrst og fremst verið málsvari þeirra sem ekki eru af sama kyni og bankastjórar og oftar en ekki þiggja laun af hinum enda launaskalans, þeirra sem nú mæta skilningsleysi atvinnurekenda í yfirstandandi kjaraviðræðum. Andstæðurnar á milli kjara bankastjóra, sægreifa og að minnsta kosti sumra stjóra annars vegar og launafólks, atvinnulausra, námsmanna og almennra ellilífeyrisþega hins vegar, hljóta að skapa réttláta reiði og aukið baráttuþrek. Ráð mitt til atvinnurekenda nú er að hlusta á þessa reiði og auka réttlætið í kjaramálum landsmanna. Að öðrum kosti hlýtur þessi réttmæta reiði að fara í neikvæðari, jafnvel hættulegri farveg.