Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:08:40 (3737)

1997-02-19 16:08:40# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:08]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Enn og aftur birtast tölur um óhófleg launakjör og lífeyriskjör bankastjóra. Enn og aftur virðist framkvæmdarvald og þing þjóðarinnar ráðalaust. Hér kemur fram af hálfu hæstv. bankamálaráðherra að hann hafi ekki boðvald í málinu. Það er að sönnu rétt. En lausnin liggur þar með í þessum sal, nefnilega að breyta gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Ég vil lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því að flytja frv. til breytinga í þá veru. Nefnilega að tryggja að bankastjórar sinni ekki aukastörfum eins og gildir um aðra ríkisstarfsmenn og í öðru lagi að launa\-ákvarðanir þeim til handa fari til Kjaradóms eins og gildir um aðra ríkisstarfsmenn. Það er nefnilega ljóst, hvað sem líður kosningu Alþingis til bankaráðanna að bankaráðin hafa ekki gegnt sínu hlutverki og það enda þótt ríkisstjórnarflokkarnir hafi í þeim sérstaka fulltrúa sína úr þessum þingsal, þingmenn, til að tryggja að pólitískur vilji ríkisstjórnar hverju sinni gangi þar fram. Þess vegna held ég að eina ráðið til að bregðast við þessu sé að þingið taki þetta mál til sín á nýjan leik, bregðist við eðlilegri gagnrýni í þessum efnum og taki þær ákvarðanir sem skynsamlegar teljast.

Ég vil hins vegar árétta það, virðulegur forseti, að gefnu tilefni að Alþfl. hefur um langt árabil tekið ákvörðun um að skipa ekki þingmenn í bankaráð einfaldlega vegna þess að við teljum eðlilegt að skiptingin á milli löggjafarvalds annars vegar og framkvæmdarvalds hins vegar sé algjörlega skýr. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar kosið að fara aðra leið í þessum efnum og kannski með þeim afleiðingum sem við okkur blasa í dag.