Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:10:45 (3738)

1997-02-19 16:10:45# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:10]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Það orkar ekki tvímælis að starfskjör bankastjóra ríkisbankanna eru góð og hafa verið það alla tíð. Hitt er þó ljóst að þau eru sýnishorn af þeim forstjóralaunum sem gilda á Íslandi hjá sambærilegum fyrirtækjum. Ég er hér með sýnishorn sem Frjáls verslun gaf út um laun 600 einstaklinga í forustustörfum. Þar hafa margir hærri laun en bankastjórarnir, aðrir lægri. Algeng eru á markaðnum tvö- og þreföld laun forsætisráðherra. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar um dreifingu atvinnutekna á árinu 1995 hafa 1.200 einstaklingar í landinu yfir 5 milljónir í árstekjur. Ég get tekið undir með hæstv. viðskrh. að tímabært er að endurskoða hvernig þessi laun eru fundin og höggva á hnúta sem valda tortryggni. Nú eiga menn að skoða þetta mál í stærra samhengi. Hlutafélagsformið eða formbreytingin er engin lausn eða staðreynd um kjaralækkun bankastjóranna. Bankastjórar Íslandsbanka og sparisjóða eru síst með lakari starfskjör og þar eins og í ríkisbönkunum eru þau tekin af rekstrarkostnaði bankanna. Ég tel aftur á móti að miklar kröfur um ábyrgð og rekstur eigi að gera til bankastarfsemi. Stólarnir eiga að vera valtir sé reksturinn ekki í lagi. Búnaðarbankinn hefur skilað góðri afkomu og á þessum áratug má ætla að hann skili í ríkissjóð um 1 milljarði kr. í tekjuskatt á meðan hinir viðskiptabankarnir eru tekjuskattslausir, einkabankinn þar með talinn. Lágu launin eru svo vandamál dagsins, þar verður að finna lausn. Ég vona að það gerist með þeim kjarasamningum sem nú eru fram undan.

Sá hv. þm. sem hóf þessa umræðu var Jóhanna Sigurðardóttir. Frá árinu 1987--1994 var hv. þm. ráðherra og viðskiptaráðherrann alþýðuflokksmaður allan tímann. Hvað gerði hv. þm. á þessu tímabili til að lækka starfslaun bankastjóranna? (Forseti hringir.) Flokksbræður hennar fóru enn fremur með forustu í bankaráðum, þeir Ágúst Einarsson og Þröstur Ólafsson, núv. starfsmaður jafnaðarmanna. Verður Þröstur Ólafsson kallaður úr þjónustu sinni undan Svörtuloftum? Ég spyr hv. málshefjanda að því.