Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 10:53:17 (3745)

1997-02-20 10:53:17# 121. lþ. 75.5 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[10:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Í fyrri umræðum um þetta mál var ég spurð að því í andsvari af hv. þm. Alþb., Kristni H. Gunnarssyni, hvernig Kvennalistinn vildi leysa það vandamál að heilu byggðarlögin missi lífsviðurværi sitt ef einstaklingar kjósa að selja þann rétt til sjósóknar sem þeim er falinn. Hv. þm. spurði vegna yfirlýsingar minnar um að ég teldi að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi tryggði ekki að núverandi nýting á auðlindinni væri til hagsbóta fyrir þjóðarheildina, sem ég tel mjög mikilvægt að festa í stjórnarskipunarlög með hliðsjón af því að nytjastofnarnir í hafinu eru í eigu íslensku þjóðarinnar. Hv. þm. spurði um úrræði Kvennalistans til að tryggja að auðlindin í hafinu nýtist í þágu eigenda sinna, þjóðarheildarinnar, og þar með að heilu byggðarlögin missi ekki lífsviðurværi sitt.

Það er ekki ætlun mín, herra forseti, að orðlengja um þetta mál þar sem hv. fyrirspyrjandi er ekki staddur hér í salnum. En í mjög stuttu máli hefur Kvennalistinn haft það á stefnuskránni allt frá árinu 1986 að byggðakvóta sé úthlutað til byggða. Það er reyndar mjög athyglisvert sem ég heyrði ekki alls fyrir löngu frá fyrrv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni, að komið hafi verulega til tals þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 að hafa þennan háttinn á fremur en að úthluta þessu beint til útgerðarmanna eftir veiðireynslu.

Í stefnuskrá Kvennalistans er útlistað nákvæmlega hvernig við viljum haga þessum byggðakvóta. Það hefur auðvitað ýmislegt breyst síðan sú stefnuskrá var samin árið 1995, en þar er talað um að skipta hafinu í kringum landið í djúpsjávarmið og grunnslóð og það sé fyrst og fremst grunnslóðin sem verði nýtt af byggðunum í kring. Hugmyndin er þá sú að hluta árlegs aflamarks sé vísað til byggðarlaganna og bæjarstjórn á viðkomandi stað fari með notendarétt þess kvóta.

Þá spyrja margir hvort það mundi ekki minnka framleiðni kerfisins og minnka arðinn af kerfinu. Það er hugsanlegt. En það er reyndar mjög mikilvægt að mínu mati að auðlindin komi öllum til góða og að ríkidæmi fárra, hvort sem við köllum þá sægreifa eða annað, þarf alls ekki að tryggja almannaheill. Ég held því að það séu mun fleiri sjónarmið en hámarksgróði einstaklinga sem hér skiptir máli. Það verður að taka mið af atvinnuástandi úti um allt land og að fólkið í landinu geti lifað á þeim stað sem það hefur fjárfest, t.d. byggt sín íbúðarhús. Það er mjög óvarlegt félagslega séð að hafa hér kerfi sem getur kippt lífsviðurværi heilla byggðarlaga undan þeim ef einstaklingar kjósa að haga því svo.

Ég tel þetta vera tvö helstu vandamálin miðað við kerfið í dag þ.e. að tryggja að auðlindin sé í raun í eigu þjóðarinnar og sé nýtt í þágu hennar. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, spurði einmitt hvort ég teldi að veiðileyfagjald gæti að einhverju leyti leyst það mál. Ég tel að það geti leyst það mál á vissan hátt ef ríkið fær inn ákveðna upphæð fyrir nýtingu á auðlindinni, þá sé hægt að nýta það fé til almannaheilla. Ég tel einnig að hin leiðin til að tryggja byggðirnar og búsetu sé ekki kippt undan heilu byggðunum sé sú að ákveðinn kvóti fari á byggðarlög ef þess þykir þörf.

Að öðru leyti vil ég vísa hv. þm. á stefnuskrá Kvennalistans þar sem þetta er útlistað í smáatriðum eins og það var 1995. Það kemur vissulega til greina að mínu mati að endurskoða þetta kerfi alveg frá grunni. Það er það mikil úlfúð og óánægja með það að alveg er tímabært að endurskoða það frá grunni, en þá á ég auðvitað alls ekki við að það eigi að fara aftur til einhverra fornra hátta þar sem arðsemi kerfisins eigi ekki að skipta máli. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum fiskveiðistjórnarkerfi þar sem hámarksfiskveiðiarður næst út, en það er mikilvægt að þjóðin njóti þessa fiskveiðiarðs í heild og að fólkið sem býr nálægt fiskimiðunum fái að veiða fiskinn sem er spriklandi í sjónum í kringum það en ekki einhverjir aðrir sem búa á hinum hluta landsins.