Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:17:54 (3748)

1997-02-20 11:17:54# 121. lþ. 75.5 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:17]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að við hv. þm. Mörður Árnason verðum að nota annað tækifæri til að rökræða um innihald stefnuskrár Alþb. eins og hún var á sínum tíma, jafnmiklar fjarstæður og hann fór með hér. Auðvitað verður hver að ráða því hvort hann trúir orðum þingmannsins en eins og ég hef þegar sagt, þá var það mikil fjarstæða sem hann flutti hér. Hann getur auðvitað státað af því ef hann vill að hann hafi verið í flokki sem vildi þjóðnýta allan atvinnurekstur í landinu því hann átti sæti í þessum flokki og var félagi í honum í sjálfsagt ein 20 ár og ég minnist þess nú ekki að hann hafi gert neinar sérstakar atlögur að stefnuskrá flokksins á sínum tíma. Ég get eiginlega fullyrt að hafa setið með honum a.m.k. eina 20--30 miðstjórnarfundi og man ekki til þess að hann hafi nokkru sinni minnst á þetta áhyggjuefni sitt.

En hitt er staðreynd að Alþb. hefur aldrei verið sérstakur þjóðnýtingarflokkur en hefur lagt mikla áherslu á það alla tíð að eðlilegt sé að búa hér við blandað hagkerfi enda þótt vissulega hafi verið lögð áhersla á samvinnurekstur, ríkisrekstur og sveitarfélagarekstur þar sem það átti við. Þetta gæti ég auðvitað sýnt fram á við annað og betra tækifæri þegar ég hefði einhvern tíma til þess að koma gögnum að og tilvitnunum.

Það virðist vera svo að þessir hlutir standi svona í minningu þingmannssins sem er horfinn úr Alþb. fyrir nokkrum árum síðan. En það er hans mál, það er hans vandi eða öllu heldur þá er það hans höfuðverkur. Ég get ekkert gert við því.