Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:44:31 (3756)

1997-02-20 11:44:31# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:44]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að láta áheyrendum öllum eftir að meta hvort það er heilbrigð skynsemi hjá hv. þm. Merði Árnasyni að gruna sjálfstæðismenn alltaf um græsku, sérstaklega þegar þeir eru margir saman á þingskjali. Það verður að vera hans mál. En hvort verið er að reyna að nota þessi mál til heimabrúks, þá má það til sanns vegar færa að við viljum að heilbrigðisþjónustan sé hvarvetna í góðu lagi og verði sífellt betri, að fólk geti átt von á því að eiga jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu hvar sem það býr á landinu.

Hitt er annað mál þegar við erum grunaðir um að vera að halda fram hlut landsbyggðar á kostnað Reykjavíkur og það sé okkar meining, þá vil ég rifja upp orð í ræðu hv. þm. hér áðan þegar hann sagði að landsbyggðarmenn ættu greiðari aðgang að sjúkrahúsum í Reykjavík heldur en Reykvíkingar og það væri á kostnað Reykvíkinga. Ég bið hv. þingheim að hugleiða þau orð, hvort hann er að fara fram með eitthvað sem kannski hentar eingöngu til heimabrúks hjá honum.