Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:46:02 (3757)

1997-02-20 11:46:02# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð taka undir það að ræða hv. þm. hér á undan var dálítið á skjön við ræðu 1. flm. sem haldin var fyrir tveimur dögum og ég svaraði í ræðu. En ég tek undir með hv. þm. að biðlistar eru svartur blettur á heilbrigðiskerfi okkar. Það fannst okkur jafnaðarmönnum snemma í vetur þegar við lögðum fram beiðni um skýrslu þar sem farið var fram á upplýsingar í einum 9 liðum um afleiðingar biðlista fyrir sjúklinga og önnur áhrif biðlistanna. Sú vinna hefur verið í gangi í heilbrrn. og er henni nánast lokið. Ég velti því fyrir mér hvar þessir hv. þingmenn Sjálfstfl. hafa alið manninn ef þeir hafa ekki fylgst með því. Kynntu þeir sér ekki hvað var í gangi í þinginu, hvaða umræður höfðu farið hér fram? Vissu þeir ekki af því að verið var að vinna þessa vinnu? Það eina sem er öðruvísi af þeim verkefnum sem nefndinni er ætlað að vinna í þáltill. heldur en það sem jafnaðarmenn óskuðu eftir í skýrslunni, er að það er óskað eftir að kannað verði að hve miklu leyti hagkvæmt er að nýta þá heilbrigðisaðstöðu sem fyrir hendi er utan höfuðborgarsvæðisins. Það er það eina sem er öðruvísi en skýrslubeiðnin sem þegar er búið að vinna þannig að ég furða mig á því. Og ef hv. þm. sýnast biðlistarnir svona svartur blettur, og ég deili þeirri skoðun með honum, þá velti ég því fyrir mér hvað þrír af sex flutningsmönnum tillögunnar sem sitja í fjárln. voru að hugsa þegar þeir skáru niður til heilbrigðisþjónustunnar, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur verulega á landsbyggðinni, þannig að hver stjórnarmaðurinn á sjúkrahúsum á landsbyggðinni á fætur öðrum kemur í fjölmiðla og lýsir því yfir að honum sé ekki unnt að reka sjúkrahúsin á þeim fjárveitingum sem hv. þm. Hjálmar Jónsson og þrír af öðrum flm. á þessari þáltill. komu sér saman um að leggja til fyrir áramót í fjárln.