Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:52:48 (3761)

1997-02-20 11:52:48# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:52]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að ræða mjög merkilegt mál, þ.e. biðlista í heilbrigðisþjónustunni og hvernig sé hægt að stytta þá. Mig langar aðeins í mjög stuttu máli að segja frá Norðurlöndunum af því að það hefur borið hér á góma að þar hafa þeir tekið ákvörðun t.d. í Noregi og Svíþjóð um hámarksbiðtíma. Það eru sex mánuðir í Noregi og þrír mánuðir í Svíþjóð fyrir ákveðna sjúklingahópa. Þessi aðferð hefur mistekist þar vegna þess að læknar túlka biðlistana á mismunandi hátt og setja allt of marga á biðlistana þannig að þetta kerfi hefur ekki orðið til þess að jafna aðgang manna að heilbrigðisþjónustunni heldur þveröfugt. Það hefur ekki virkað og nú eru Norðmenn t.d. að víkja frá þessu kerfi og eru að fara yfir í annað.

Danir hafa hins vegar farið aðra leið. Þeir hafa ekki sett upp eitt stíft kerfi sem hægt er að aðlagast og svindla á eins og gert hefur verið annars staðar, heldur hafa þeir farið tímabundið í aðgerðir, að stytta ákveðna biðlista, farið tímabundið í að stytta alla biðlista og veitt miklar upplýsingar um biðlistana þannig að fólk í heilbrigðisþjónustunni viti nákvæmlega hvernig málin standa.

Í þessari till. til þál., og það er alveg rétt sem hefur verið dregið fram að það eru landsbyggðarþingmenn í einum flokki sem flytja hana, er komið inn á það atriði hvernig hægt sé að stytta biðlista á hagkvæman hátt og að það eigi að meta að hve miklu leyti mögulegt er að nýta þá heilbrigðisaðstöðu sem fyrir hendi er utan höfuðborgarsvæðisins til að stytta biðlistana og koma þannig í veg fyrir að sérhæfð heilbrigðisþjónusta verði bundin við höfuðborgarsvæðið eitt. Þetta er að sjálfsögðu mjög falleg ósk og hljómar vel, en að mínu mati held ég að þetta gangi ekki alveg upp, því miður, að þetta sé hálfgerð draumsýn. Það hefur sýnt sig t.d. í Noregi, þar sem þeir hafa mikla reynslu af þessum biðlistamálum, að þeir hafa reynt að færa fólk á milli sjúkrahúsa til þess að stytta biðlista en það hefur ekki gefist neitt sérstaklega vel vegna þess að þetta fólk vill sækja þjónustuna í nágrenni sitt. Það vill ekki fara út á land eða eitthvað í burtu til að sækja þjónustuna, það bíður frekar heima hjá sér. Og það vill líka vera nálægt sínum lækni, það skapast yfirleitt traust samband sjúklings og læknis og það vill ekki fara og það vill vera nálægt fjölskyldu sinni.

Ég skil svo sem ósköp vel af hverju þetta er sett fram og þetta hljómar mjög vel og er góð hugsun, en ég ansi hrædd um að þetta sé hálfgerð draumsýn, nema helst að það verði hægt á einstaka sjúkrahúsum að taka upp sérhæfða þjónustu sem er þá ekki fyrir hendi annars staðar þannig að fólk verði að fara á viðkomandi landsbyggðarsjúkrahús til þess að fá þessa þjónustu yfirleitt. Þetta óttast ég.

Varðandi það sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á um sparnaðinn og einhvers konar klandur sem stjórnarflokkarnir eru í, þá er það ekki rétt. Sú vinna gengur ágætlega. Eins og allir vita er stefnt að sparnaði á landsbyggðarsjúkrahúsunum og það er mikill sparnaður á höfuðborgarsvæðinu einnig sem gleymist svolítið í þessari umræðu. Það eru tveir þingmenn sem eiga sæti í þeirri nefnd sem er að útfæra sparnaðinn. Það eru hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann er eins og allir vita í Sjálfstfl. og stendur heils hugar að þeirri vinnu sem þar á sér stað. Hins vegar hefur umræðan um þá vinnu verið svolítið á skjön við raunveruleikann má segja. Það er búið að leggja fram tillögur og landsbyggðarsjúkrahúsin eru að bregðast við þeim og það er svokallað samráð á milli þessara aðila. Þetta hafa framkvæmdastjórar sjúkrahúsanna á landsbyggðinni ekki viljað túlka sem samráð sem er mjög leitt vegna þess að allar þær upplýsingar sem ég fæ bæði úr nefndinni og úr heilbrrn. eru á einn veg, að samráðið er í fullum gangi.

Hins vegar hafa ýmsir þingmenn, og það má segja að hv. þm. Hjálmar Jónsson sé undir það seldur, leyft sér að skrifa stórmerkilegar greinar eins og hér var vitnað í. Hv. þm. Hjálmar Jónsson vitnaði sjálfur í sína grein í Morgunblaðinu sem að mínu mati er ekki til þess að skapa sátt um þetta mál, frekar til þess að æsa upp óánægjuna. Í þeirri grein er verið að etja saman sjúkrahúsum á landsbyggðinni og sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu eða suðvesturhorninu. Ég held að það sé afar skaðlegt að gera slíkt þegar á að spara í viðkvæmum málaflokki og bæta við í grein sinni hvernig veðrið er á Siglufirði og annað slíkt. Þetta er að sjálfsögðu skiljanlegt í því ljósi að Norðurl. v. á að spara samkvæmt þessum tillögum og þá hlaupa þingmenn þess kjördæmis upp og gera málið tortryggilegt. Það minnir mann enn og aftur á kosningalöggjöf okkar að þegar á að skoða málin ofan í botn, þá bregðast þingmenn því miður oft illa við og neita að skoða málin jákvætt í þeirri von að þeir séu að verja sitt kjördæmi sem oft á tíðum endar þannig að það hefði verið betur heima setið en af stað farið.