Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:05:49 (3766)

1997-02-20 12:05:49# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:05]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig ekki hafa talað hér eins og einhverja púðurtunnu. En ég er nú þannig að ég tala yfirleitt frekar skýrt og vil halda því áfram.

Varðandi hlut hv. þm. Hjálmars Jónssonar og grein hans, þá viðurkenni ég að hún kom mér mjög á óvart vegna þess að hv. þm. er í fjárln. og þekkti þetta mál þess vegna mjög vel og hvernig átti að vinna það. En síðan kemur grein í Morgunblaðinu þar sem verið er að ýta undir óánægju og etja saman sjúkrahúsum á suðvesturhorninu og sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Það tel ég ekki vera svona máli til framdráttar því miður.

Varðandi þá tillögu sem við erum að ræða hér, þá er hún fallega fram sett og hljómar vel, en eins og ég sagði í ræðu minni, þá tel ég ólíklegt að við getum stytt biðlistana verulega með því að setja upp sérhæfða þjónustu úti á landi af því að ég held að fólk vilji ekki fara á milli landshluta í eins miklum mæli og við teljum.