Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:07:16 (3767)

1997-02-20 12:07:16# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:07]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta örlítið misskilning varðandi blaðaskrif mín, ég fagna því hversu vel hv. þm. hafa tekið eftir þeim og vona að svo sé um fleiri. Varðandi forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni var ég að vísa til greinar sem ég ritaði og birtist í Morgunblaðinu 20. desember 1995 og miðað við áhugann á greinum mínum, þá bið ég hv. þm. að lesa þessa grein um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu um biðlistana og svo um niðurskurðaráform og sparnaðarkröfu á landsbyggðarsjúkrahús vil ég segja þetta: Landsbyggðarsjúkrahúsin 12 sem gerð er krafa til um 160 millj. kr. sparnað áttu ekki að sitja við sama borð og stækkað höfuðborgarsvæði, þ.e. Reykjavíkursjúkrahúsin og nágrenni, með Suðurnes, Selfoss og Akranes innifalin, þar sem rekstrarráðgjafi eða óháður aðili er fenginn til þess að vinna með ráðuneyti og heimaaðilum að hagræðingu. Hins vegar er sjúkrahúsunum 12 á landsbyggðinni mætt með sparnaðarkröfu og lagt fram í prósentum og milljónum hversu mikið þau eiga að spara. Forráðamenn þeirra mega hins vegar velja hvernig er sparað, en þetta eiga þau að spara. Þessi vinnubrögð gagnrýndi ég og óskaði eftir að þau sætu við sama borð og önnur. Og það er rétt að það kom fram og er í þessum tillögum sem formlega voru fyrst lagðar fram fyrir fjárln. á fundi fyrir tveim vikum. Ég bið hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að athuga það, að með tillögunum um milljónirnar niðurskornar innifaldar gerðum við þm. Norðurl. v. samþykkt, tveir sjálfstæðismenn og tveir framsóknarmenn, um að þessi sjúkrahús sætu við sama borð og hin hér syðra.