Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:09:52 (3768)

1997-02-20 12:09:52# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:09]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vinnan átti að vera á þeim nótum að þær 60 millj. sem var ákveðið að reyna að spara á þessu ári á sjúkrahúsum á landsbyggðinni átti að spara í samráði við sjúkrahúsin, við þessa stjórnendur. Þá var ekkert rætt um einhverja rekstrarlega úttekt. Það er ekki fyrr en búið er að vinna lengra í málinu og menn átta sig á því úti á landsbyggðinni að það á að fara að spara, þingmenn og aðrir, að þá er allt í einu kallað eftir rekstrarlegri úttekt.

Það má svo sem vera að það sé gott að gera hana. En ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en að þetta sé hálfgert vantraust á heilbrrn., að því sé ekki treystandi til að spara þessar upphæðir í samráði við heimamenn, heldur þurfi einhverja utanaðkomandi aðila. Það má alveg skoða það, að fá utanaðkomandi aðila. En það er rokið upp og beðið um þessa úttekt eftir að málið er komið í þennan farveg.

Mig langar að nota tækifærið og spyrja hv. þm. Hjálmar Jónsson fyrst honum er svona mikið í mun að spara í heilbrigðiskerfinu, stytta biðlista og spara, hvernig líst hv. þm. á þá hugmynd að sameina Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana? Er hv. þm. ekki sammála því að þar megi spara stórar upphæðir fyrst hv. þm. þekkir þessi mál svo vel og situr í fjárln.?