Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:21:43 (3779)

1997-02-20 12:21:43# 121. lþ. 75.8 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um aðgang nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni. Þar sem fyrri hluti umræðunnar var fyrir nokkrum dögum þá ætla ég að leyfa mér að lesa þessa þáltill. en hún hljóðar svo:

,,Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera áætlun um að innan þriggja ára hafi sérhver nemandi í opinberum skólum aðgang að tölvum og tölvutæku námsefni minnst einn tíma á dag.``

Fyrsti flm. þessa máls er hv. þm. Pétur H. Blöndal en sú sem hér stendur er einn af meðflm. á þessari tillögu.

Því miður heyrði ég ekki framsöguræðu 1. flm., og hún er ekki tilbúin til útskriftar, en samkvæmt hans eigin upplýsingum kom hann inn á nokkur atriði í inngangsræðu sinni sem ég er ekki alveg sammála og vil taka það sérstaklega fram hér. Það varðar í fyrsta lagi kostnaðarþátttöku foreldra, en 1. flm. mun hafa reifað það að þar sem hérna er hugsanlega um dýrt átak að ræða væri eðlilegt að foreldrar tækju þátt í þeim kostnaði og ættu jafnvel að hluta tölvurnar sem væru í skólunum. Í öðru lagi mun 1. flm. hafa reifað þá skoðun að þetta átak mundi kosta mikla peninga og kannski væri ástæða til þess að huga að seinkun einsetningar skóla vegna þess.

Ég vil taka það skýrt fram, þó að ég sé sammála því að hér sé um mjög mikilvægt átak að ræða, að ég tel það hvorki ástæðu til að seinka einsetningu skóla né að foreldrar taki þátt í þessum tölvukostnaði.

Ég get að öðru leyti tekið undir langflest af því sem kemur fram í greinargerð með tillögunni en vil gera hér að umræðuefni alveg sérstaklega stöðu kynjanna í þessu sambandi, ekki síst í ljósi þeirrar hugbúnaðargerðar sem væntanlega yrði ráðist í ef tillagan verður samþykkt. Í upphafi greinargerðarinnar er vitnað í stefnu ríkisstjórnarinnar í upplýsingamálum. Ég vil nota tækifærið hér og lýsa vanþóknun minni á því að ríkisstjórnin skipaði nefnd í upplýsingamálum sem skilaði merkri skýrslu í október 1996 og í þessari nefnd eru 18 karlar og 2 konur. Ég tel að þetta sé mjög mikil yfirsjón og mjög alvarlegur hlutur, ekki síst vegna þess, og ég er ekki ein um þá skoðun, að það hvort fólk nær valdi á upplýsingatækninni í framtíðinni geti skipt sköpum um það hvort fólk er samkeppnisfært á vinnumarkaði.

Ég vil líka vekja athygli á að ýmsir aðilar hér í skólakerfinu eru þegar farnir að hafa áhyggjur af stöðu kynjanna varðandi tölvumál. Ég frétti nýlega, hæstv. forseti, af því að Námsgagnastofnun hélt fund um þessi mál með samráðshópi um jafna stöðu kynja í skólum og starfshópi um jafnréttismál í skólum, þ.e. á fundi 14. nóvember 1996. Þar var sérstaklega rætt um hvernig ber að takast á við það að upplýsingatæknin er að fá æ stærri sess í skólakerfinu og kennarar upplifa á vissan hátt ekki sama áhuga hjá báðum kynjum. Ég tel mjög gott að heyra að skólafólk er á verði í þessum málum, en m.a. er bent á það í gögnum frá þessum fundi að flestir tölvufræðingar og forritarar eru karlmenn og það virðist vera að stúlkum finnist það frekar vera tímaeyðsla að hanga yfir tölvum heldur en strákum. Áhugamálin eru svolítið mismunandi og margir kenna því um að þau forrit og sá hugbúnaður sem tiltækur er höfði beinlínis meira til pilta. Því vona ég svo sannarlega að sú hugbúnaðargerð, sem mun verða nauðsynleg ef þessi tillaga er samþykkt og væntanlega verður að einhverju leyti á könnu Námsgagnastofnunar, verði þannig að það verði reynt að höfða til beggja kynja. Í því sambandi vil ég einnig minna á eins og ég kem að nánar hér á eftir að þetta er mjög fjárfrek tillaga og þá er mjög mikilvægt að fé verði veitt t.d. til Námsgagnastofnunar til þess að þessi hugbúnaðargerð geti átt sér stað innan hennar að því marki sem ætlast er til þess.

Herra forseti. Ég tel mjög eðlilegt að Námsgagnastofnun verði falið að hluta að afla t.d. upplýsinga um hvaða kennsluforrit eru tiltæk á alþjóðamarkaði og að til þess fái hún fé. Námsgagnastofnun hefur árlega beðið um auknar fjárveitingar sem oftar en ekki hefur verið hafnað. Við kvennalistakonur höfum mörg undanfarin ár lagt til við gerð fjárlaga að veitt verði aukið fé til Námsgagnastofnunar, nú síðast bæði til þess að yfirfæra námsefni með tilliti til stöðu kynjanna í skólabókum og til að gera átak í kennslubókagerð í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar. En á þetta var ekki hlustað.

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vil einnig koma hér að sem varða greinargerðina. Í fyrsta lagi set ég stórt spurningarmerki við þær skoðanir 1. flm. að það sé æskilegt (Forseti hringir.) við 15 ára aldur að um 75% af virkum kennslutíma verði eytt fyrir framan tölvuna. Ég tel þetta bæði ólíklegt og ekki æskilegt.

Herra forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu.

(Forseti (ÓE): Nei, en tíminn er búinn.)

Já, ég mun því ljúka máli mínu í seinni ræðu.