Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:44:26 (3787)

1997-02-20 12:44:26# 121. lþ. 75.8 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:44]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að ljúka ræðu minni sem mér ekki tókst að gera í hið fyrra sinn. En vegna orða hv. flm. um að stúlkur séu ótrúlega lélegar í tölvum þá vil ég endilega ítreka þá skoðun mína að ég held að það sé engin tilviljun. Á meðan karlmenn eru fyrst og fremst forritarar og móta þennan iðnað þá er mun líklegra að leikirnir og annað höfði meira til drengja. Þetta hafa rannsóknir beinlínis sýnt. Þetta er svipað og með stjórnmálin, á meðan þar voru tómir karlar þá höfðu konur minni áhuga á stjórnmálum. Þetta er held ég fyrst og fremst spurning um að setja hlutina fram þannig að þeir höfði til stúlknanna og þess vegna, og ég held við getum verið sammála um það, er þetta spurning um að konur komist í vissar lykilstöður til þess að búa til þau forrit sem höfða jafnt til stúlkna og drengja. Þetta er ekki spurning um hæfileika og ég efast fyllilega um að það hafi verið skoðun 1. flm.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja megináherslu á þátt kennara og mikilvægis hans, ef þessi tillaga verður samþykkt, þ.e. á mikilvægi þess að fræðsla og upplýsingar til kennara vegna þessa máls verði mjög mikil. Þá á ég bæði við grunn- og endurmenntun kennara. Það er mikilvægt að þar verði gert átak ef þessi tillaga verður samþykkt, bæði í fræðslu um tiltækan hugbúnað og fræðslu um að þróa nýjan hugbúnað og aðlaga erlendan hugbúnað íslenskum aðstæðum.

Í umræðunni hefur komið fram að um mjög kostnaðarsamt átak er að ræða eða um 1.200--1.800 milljónir samkvæmt mati 1. flm. En ég tel mjög mikilvægt að efla mannauðinn í landinu og tek undir það sjónarmið að það sé lykilatriði varðandi framtíðarmöguleika einstaklinga og íslenskrar æsku að ná valdi á tölvutækninni eða stafrænum upplýsingaveitum, ekki síst á internetinu. Þess vegna þarf að taka þessa tillögu af fullri alvöru og það þarf að horfast í augu við að það þurfi að finna 1.200--1.800 milljónir. Og svona vegna þess að verið var að ræða veiðileyfagjald hér áðan þá mætti kannski benda á að þetta gæti hugsanlega verið hluti veiðileyfagjalds á einu ári ef það yrði sett á. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að tryggt verði að það verði á færi hvers barns í framtíðinni, óháð efnahag foreldra, skóla eða búsetu, að búa yfir þessari tækni þannig að það verði gjaldgengt á atvinnumarkaði framtíðarinnar.