Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:48:09 (3788)

1997-02-20 12:48:09# 121. lþ. 75.8 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:48]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að fólk hafi ekki almennt skilið orð mín þannig að ég teldi að stúlkur og piltar hefðu ekki sömu hæfileika. Það sem ég átti við var að þau hafa mismunandi áhugamál. Ég get engan veginn tekið undir það að stúlkur og piltar hafi ekki sömu hæfileika. Það segir reynsla mín mér. Ég hef ekki orðið var við neinn mun þar á. Ég hef þá trú að stúlkur geti ekki síður lært stærðfræði og eðlisfræði og sinnt tölvum heldur en drengir. Það er því algjör misskilningur ef einhver hefur skilið orð mín þannig. Ég tel einmitt mjög brýnt að þjóðfélagið nýti alla þá hæfileika sem blunda í hverjum einstaklingi, jafnt stúlkum sem drengjum, á þessum sviðum. Ég held að mikið af hæfileikum stúlkna á sviði stærðfræði og eðlisfræði og í tölvufræðum fari forgörðum vegna áhugaleysis þeirra og foreldra þeirra sem stafar af þeirra eigin fordómum í eigin garð og fordómum foreldra þeirra og jafnvel kennara og alls umhverfisins gagnvart þeim.