1997-02-20 12:49:56# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga um fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu frá Birnu Sigurjónsdóttur o.fl. Þetta er gott mál og ég get sagt það hér að Alþingi ætti að samþykkja þessa tillögu. Hún er um að tryggja fræðslu til að undirbúa nemendur með áherslu á samskipti kynjanna, fjölskylduábyrgð, einstaklingsskyldur, fjármálafræðslu, fræðslu um ábyrgð á eigin heilsu, umgengni við umhverfið og fleiri greinar sem hafa það að markmiði að gera nemendur að sjálfstæðum einstaklingum. Flm. vísa í 2. mgr. 17. gr. laga um framhaldsskóla þar sem segir að námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu skuli vera í brautarkjarna. Þetta er að vísu nokkuð víð tillaga og það er hætta á því þegar tillaga er svo stór að erfitt verði að fylgja því eftir að henni yrði framfylgt jafnvel þó hún yrði samþykkt. Ég segi: Ef hún yrði samþykkt. Og það er ekki að ástæðulausu því það er e.t.v. hægt að telja það á fingrum annarrar handar hvaða mál eru samþykkt frá stjórnarandstöðu á hverju þingi og reyndar má bæta því við að sennilega er það sömuleiðis þannig að hægt sé að telja það á fingrum annarrar handar hvaða mál eru samþykkt frá stjórnarþingmönnum. Þetta er ekki af því að þingmálin séu slæm heldur út af einhverri hefð að framkvæmdarvaldið er ekki tilbúið að taka við of miklum tilmælum eða tilskipunum frá þinginu í gegnum þingmannatillögur eða það er a.m.k. skoðun þeirrar sem hér stendur.

Mér finnst þetta góð tillaga þó ég óttist hvað hún er víð. En það sem fær mig til að taka til máls er sérstaklega það sem lýtur að fjármálafræðslunni sem ég lít á að sé eitthvert brýnasta mál í okkar þjóðfélagi, þ.e. að taka á unga fólkinu með fræðslu í þessum málum. Ég flutti um það tillögu á þinginu 1991 og fékk þá tillögu samþykkta. Hún var þannig, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.

Markmið fjármálafræðslunnar verði:

að taka til meðferðar sem flest er við kemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,

að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:

að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,

að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,

að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.``

Þessi tillaga fékk mjög víðtækan stuðning í þessum sal enda var hún ein af þeim fáu tillögum sem voru samþykktar og við bjuggumst væntanlega öll við því að innan skamms tíma yrði þetta brýna fræðsluefni komið inn í námsefni skólanna í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólann þar sem svo ríkur vilji Alþingis væri til þess.

Á þeim tíma sem ég flutti þessa tillögu var óvenjumikið um að ungt fólk væri lýst gjaldþrota og hjá borgarfógetaembættinu einu var nokkuð á annað hundrað ungmenna undir þrítugu lýst gjaldþrota á átta mánaða tímabili og þar af nokkrir tugir undir 24 ára. Ég þekki ekki sambærilegar tölur nú en við þekkjum hins vegar öll skuldasúpuna sem ungt fjölskyldufólk situr í og við þekkjum tilboðin um að kaupa nú og borga seinna. Nýjasta dæmið er tilboð um að fara í sumarleyfi og vera að borga það fram til aldamóta. Það er því mikilvægara en nokkru sinni að ungt fólk geti skipulagt fjármál sín, haft yfirsýn yfir skuldbindingar, að ég tali ekki um að vita hvað felst í því að skrifa upp á fyrir aðra, en það eru mörg sorgleg dæmi um það að fólk hafi skrifað upp á fyrir vini, kunningja eða ættingja og sitji svo uppi með skuldirnar.

Hið alvarlega í því að svo góð tillaga hafi fengist samþykkt á Alþingi er að henni hefur verið mjög illa framfylgt. Ég hef borið fram fyrirspurnir nokkrum sinnum til menntmrh. um þetta efni, bæði munnlegar fyrirspurnir og fyrir tveimur árum bar ég fram skriflega fyrirspurn til menntmrh. og fékk skriflegt svar. Þar kom fram að viðræður hefðu strax farið fram milli Námsgagnastofnunar og fulltrúa banka og sparisjóða um útgáfu námsefnis um fjármálaumsýslu.

Mér var kunnugt um það á þessum tíma að nokkrir bankanna voru komnir í gang með mikið og gott fræðslustarf og ég þekki það t.d. hjá fræðsludeild Íslandsbanka að þar fer fram fræðsla. Haft er samband við skólana út af henni og teknir ákveðnir bekkir í grunnskólanum sem fá nokkra fræðslu í fjármálaumsýslu sem hentar þessum yngsta hópi. En í svarinu sem ég fékk fyrir tveimur árum kom fram að námefnið Fjármál mín og framtíð, væri samvinnuverkefni Námsgagnastofnunar og samstarfsnefndar banka og sparisjóða, að höfundur hefði skilað af sér handriti sem ætti að senda samstarfsnefndinni fljótlega til yfirlestrar og síðan yrði námsefnið gefið út og yrði væntanlega tilbúið á vormánuðum þá, að það væri ætlað nemendum í 10. bekk grunnskólans og að það hefði verið tveggja ára tilraunakennsla í efninu. Síðan var sagt að fjármálaumsýsla væri ekki afmörkuð skyldunámsgrein í aðalnámskrá og það yrði skoðað við undirbúning og endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla hvernig taka ætti á þessum þætti og bent á að nefnd um mótun menntastefnu legði til að námsgreinin heimilisfræði verði skilgreind að nýju og tæki þá til þessara þátta. Það er að sjálfsögðu athygli vert að lögð er mikil áhersla á að nefnd um mótun menntastefnu skuli leggja þetta til þrátt fyrir að lítið hafi gengið í kjölfar þess að Alþingi allt vildi að tekið væri á þessum málum.

Nú vill svo til að ég greip símann og hringdi á Námsgagnastofnun núna fyrir hádegi til að vita hvernig reynslan væri af kennslunni þessi tvö ár af þessu fína námsefni Fjármál mín og framtíð, og þá fékk ég þær undarlegu upplýsingar að námsefnið hefði aldrei verið gefið út. Það hefði verið fellt út af áætlun. Ástæða þess var óþekkt sögðu þeir sem við mig töluðu og þeir sem hefðu getað upplýst það voru ekki viðstaddir. En þannig hefur þetta gengið á þeim sex árum sem ég hef verið að fylgjast með hvernig því yrði fylgt eftir að Alþingi ályktaði í þessa veru, þ.e. að það gengur lítið.

Ég hef gert fjármálafræðsluna sérstaklega að umtalsefni í mínum stutta ræðutíma. Það hefur lengi verið skoðun mín að það sé brýnasta kennsluefnið í því sem lýtur að undirbúningi undir lífið og að stofna fjölskyldu. Þingsályktunartillagan er, eins og ég hef sagt hér, mun víðtækari og spannar fleiri svið. Þetta eru allt mikilvægir þættir sem þó víkja gjarnan fyrir öðru í skólaefninu og margir kennarar hafa haft orð á því að ætlast sé til að þeir taki allt of margt í samfélagslegum skilningi inn í fræðsluefnið og vinnuvikan dugi ekki undir hið hefðbundna. Þetta vekur til umhugsunar um það hvort (Forseti hringir.) við séum e.t.v. komin að þeim tímapunkti að þurfa að horfast í augu við það að hverfa frá hinum löngu sumarleyfum, skipuleggja skólahaldið öðruvísi og reyna að ná markvissara inn í skólana víðtækara efni sem undirbýr ungt fólk undir lífið.