1997-02-20 14:08:14# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:08]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum þessarar tillögu fyrir að hafa komið þessu máli hér á dagskrá. Auðvitað er þetta ekki alveg nýtt mál. Þetta hefur náttúrlega verið reynt að kenna í mörg ár eða eitthvað svipað í mörgum framhaldsskólum. Það hefur reyndar verið mjög mismunandi eftir skólum. SAM-áfangar hefur það heitið eða ratvísi eða eitthvað slíkt og hefur gefist mjög vel. En ég vildi að hér kæmi aðeins betur upp eitt mál sem hefur strandað mikið á og það er skortur á námsgögnum til þessarar kennslu. Margir kennarar hafa farið af stað fullir áhuga bæði í grunnskólum og framhaldsskólum og ætlað að fara að kenna slíka áfanga. Þetta hefur kostað þá alveg ómælda vinnu því þeir hafa þurft að skrifa nánast allt sjálfir á heimatölvur sínar og prenta út og auðvitað er svona ljósritað dót ekki það mest spennandi námsefni sem völ er á fyrir nemendurna. Ég held að það hljóti að þurfa að koma til opinber framlög frá ríkinu til slíkrar námsgagnagerðar. Ég vildi náttúrlega helst að það yrði gefið út hjá Námsgagnastofnun en það má nú víst ekki nefna snöru í hengds manns húsi. Hver sem gæfi það út þá fyndist mér að ríkið ætti að veita til þess sérstaklega.