Stuðningur við konur í Afganistan

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 14:15:07 (3802)

1997-02-20 14:15:07# 121. lþ. 75.9 fundur 69. mál: #A stuðningur við konur í Afganistan# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:15]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stuðning við konur í Afganistan. Þessi tillaga var lögð fram snemma hausts eftir að fregnir bárust af því að bókstafstrúarhreyfing Talebana hefði tekið völdin í Afganistan og gengið fram af mikilli hörku, m.a. í því að svipta konur nánast öllum mannréttindum. Heimurinn brást við með ýmsu móti og ýmsar helstu alþjóðastofnanir ályktuðu og fordæmdu þessar aðgerðir. En því miður hefur þessi þróun haldið áfram og í sjálfu sér breytir það litlu þó að tillagan komist ekki á dagskrá hér fyrr en nú því það hefur ekkert breyst til batnaðar og sú styrjöld sem staðið hefur í Afganistan í tæp 18 ár, í þessu litla landi, geisar enn.

Þessi tillaga gengur út á það, hæstv. forseti, að skora á ríkisstjórnina að beita sér á alþjóðavettvangi og hvar sem hún fær því við komið til stuðnings konum í Afganistan. Það þýðir að íslenska ríkisstjórnin og sendimenn hennar taki upp málið hvar sem því verður við komið og beiti sér jafnframt í alþjóðastofnunum til þess að taka á málum eftir því sem hægt er en því miður óttast ég að það sé erfitt. Hjálparstofnanir hafa að nokkru leyti dregið sig til baka út úr Afganistan. Sumar vegna þess að þær gátu ekki haldið áfram störfum sínum þar sem þeim var auðvitað falið að vinna á grundvelli reglna og samþykkta Sameinuðu þjóðanna en hin nýju stjórnvöld komu í veg fyrir að það væri hægt. Þetta á m.a. við um kennslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnanir hafa komið á fót. Þegar Talebanar heimtuðu að stúlkur væru teknar úr skólunum, það mætti ekki kenna þeim neitt, þá neituðu þessar stofnanir að halda áfram. Þær fyrirskipanir og tilskipanir sem Talebanar hafa gefið út og varða konur eru á þann veg að þær mega ekki vera einar utan dyra nema í mjög rökstuddum erindagjörðum og helst ekki öðruvísi en í fylgd með karlmanni. Þær mega ekki stunda vinnu utan heimilis og var skipað að hætta. Það hafði þá þegar mjög afdrifaríkar afleiðingar m.a. fyrir heilbrigðiskerfið því eins og kemur fram hér í greinargerðinni þá er það ótrúlega algengt í íslömskum löndum og ekki síst í heittrúarríkjum að margar konur hafa læknismenntun vegna þess að menn vita jú að það þarf að sinna veikindum kvenna og barna en samkvæmt hinni ströngu íslömsku trú þá mega óskyldir karlmenn ekki koma nálægt konum. Þess vegna var farin sú leið að mennta konur en þessi nýju stjórnvöld hafa séð til þess að þær fá ekki að vinna utan heimilis. Nú veit ég ekki hvort eitthvað hefur dregið úr þessu vegna þess að menn ráku sig á að þetta gekk ekki upp en reglurnar gilda eftir sem áður. Í þeim gögnum sem ég hef aflað mér og er hér talsverður bunki af fréttum um það sem gerst hefur í Afganistan, aðallega frá Rauða krossinum, Amnesty International og fleiri stofnunum, og samkvæmt því sem þar kemur fram þá hafa verið stanslaus mannréttindabrot allan þennan tíma. Ráðist hefur verið á konur utan dyra og þær barðar fyrir að vera á götum úti og þeim skipað að koma sér heim. Það gefur auga leið að í þessu stríðshrjáða landi er auðvitað mikið af ekkjum.

Það sem hefur kannski slegið mig mest núna þessar stundir sem ég hef verið að lesa þessar fréttir og er önnur hlið á þessum málum er hin hrikalega staða barna í þessu ríki. Það kemur hér fram --- ég ætla nú að skjóta því að að samkvæmt því sem kemur fram í uppflettiritum er Afganistan ekki nema 28.700 ferkílómetrar, þetta er um það bil einn fjórði af Íslandi, og eftir því sem þarna kemur fram er talið að um 4 millj. barna hafi látið lífið á þeim tæplega 18 árum sem styrjöldin hefur staðið. Þau hafa orðið fyrir sprengjuárásum og því hrikalega fyrirbæri sem er nú sem betur fer hafin alþjóðleg barátta gegn sem eru jarðsprengjur. Í þessu ríki eins og mörgum öðrum þar sem styrjaldir hafa geisað hefur verið komið fyrir miklu magni jarðsprengna sem verða óbreyttum borgurum að fjörtjóni og er erfitt að finna nema með sérstökum aðgerðum. Þannig að þetta er auðvitað önnur hlið á þessu hrikalega ástandi sem þarna er. En alveg frá því að Talebanar tóku völdin hafa staðið yfir stanslausir bardagar í Afganistan eins og reyndar áður, þeir breyttu ögn um eðli. Í höfuðborginni Kabúl þar sem þeir ráða ríkjum --- en borgin hefur verið meira og minna umkringd --- ríkir hrikalegt ástand, fæðuskortur, vatnsskortur og skortur á heilsugæslu. Þar hefur Rauði krossinn reynt að beita sér og þá ekki síst reynt að bjarga öllum þeim börnum sem eru vegalaus og eru fórnarlömb þessarar grimmilegu styrjaldar.

Hæstv. forseti. Það er mannréttindahliðin á þessu máli sem ég er að vekja athygli á og sú staðreynd að ný stjórnvöld sem byggja á öfgasinnaðri bókstafstrú leyfa sér að brjóta alla alþjóðlega sáttmála um mannréttindi og sáttmálann um að afnema skuli alla mismunun gagnvart konum. Þeir eru margbrotlegir í þessum efnum og það er auðvitað eitthvað sem hið alþjóðlega samfélag þarf að taka á og stöðva eftir því sem nokkur kostur er vegna þess að það er hrikalegt að horfa upp á þróun af þessu tagi. Þótt ýmislegt hafi gerst í öðrum ríkjum íslams eins og í Íran og nú síðast í Alsír þar sem konur hafa verið myrtar í stórum stíl og verið eitt helsta, hvað á ég að segja; hafa verið hundeltar af skæruliðum og verið þeirra skotmark, sérstaklega menntakonur. Þó að ástandið sé mjög slæmt þar og reyndar í Íran líka þá er það nánast barnaleikur hjá því ástandi sem ríkt hefur og ríkir í Afganistan. Það er tilgangur þessarar tillögu að vekja athygli á þessu ástandi og benda á að Íslendingar eins og aðrar þjóðir geta beitt sér í málefnum af þessu tagi. Ég vil í því samhengi minna á að m.a. Evrópusambandið gerði samþykktir snemma hausts, í byrjun október, og skoraði þar á þjóðir heims að grípa til sinna ráða. En í yfirlýsingu þeirra sagði, með leyfi forseta:

,,Samfélag þjóða getur ekki staðið aðgerðalaust hjá þegar Taleban framfylgir stefnu sem byggist á víðtækri mismunun kynjanna.`` Og framkvæmdastjórnin hvetur ríki heims til að þrýsta á Talebana að virða öll mannréttindi, sérstaklega réttindi kvenna.

Eins og ég nefndi í upphafi, hæstv. forseti, er þessi tillaga í fullu gildi enn þrátt fyrir þá mánuði sem liðnir eru og því full ástæða til að beina því til íslenskra stjórnvalda að láta til sín taka í þessu máli eins og öðrum þar sem mannréttindi eru brotin, hvort sem þar eiga í hlut karlar, börn eða konur, en þó sérstaklega þegar um jafnhrikalegt ástand er að ræða og þarna þar sem stigin eru skref langt aftur í aldir að því er manni virðist.