Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 14:38:22 (3806)

1997-02-20 14:38:22# 121. lþ. 75.14 fundur 243. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., LMR
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:38]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að ræða þá tillögu sem er til umræðu núna um úttekt á hávaða- og hljóðmengun. Ég er ein af þeim sem telja að hávaða- og hljóðmengun af margvíslegu tagi sé að verða eitt af þeim stóru, ef við getum kallað það vandamálum, eða því sem truflar hvað mest nútímamanninn og við séum að verða meira og meira meðvituð um það að mengun sé af ýmiss konar tagi. Ég nefni umræður sem hafa verið í gangi nú að undanförnu um mengun rafljósa í stórborgum. Og mig langar til að gerast svolítið persónuleg í þessari framsögu minni því ég sem barn átti þess kost að búa rétt fyrir utan Reykjavík. Þar stóð húsið eitt uppi á hæð og það var um tveggja kílómetra gangur í rútuna í skólann á morgnana og það í hvaða veðri sem var. Ég býst ekki við því að öll börn í Reykjavík mundu láta sig hafa það núna. En eitt af því yndislegasta sem mér fannst þegar ég kom heim á kvöldin var að fara út úr þessari rútu sem var að hökta og inni í henni voru læti og hávaði, fara út úr henni og koma út í náttmyrkrið og horfa á stjörnubjartan himininn og lesa í stjörnurnar. Það er ekki mikið hægt að gera þetta þar sem ég bý í dag. Og það er þetta sem mér finnst við fara svo mikils á mis við, nútímaheimurinn, þótt tæknin hafi hjálpað okkur mikið og gert líf okkar fjölbreyttara.

Það gerðist svo að í 20 ár var ég afskaplega lítið úti í náttúrunni. Fyrir nákvæmlega 10 árum tók ég mig til og fór í fimm daga hestaferð upp í óbyggðir og þá kom það sama fyrir mig að mér fannst hlutirnir allt í einu vera orðnir svo einkennilegir og hátíðlegir. Og það var þögnin, þögnin sem við þessir ferðamenn sækjumst eftir í dag. Það var þögnin sem sló mig ásamt tísti í lóunni eða þrestinum. Og svo, allt í einu í þögninni þá hugsar maður ekki um músíkina, ekki um allan þennan hávaða sem venjulega er allt um kring heldur tekur eftir geldingahnöppunum sem voru þarna undir steini. Þetta er hlutur sem mér finnst ómetanlegur og gæti ekki verið án það sem eftir er lífs míns. En það er bara orðið svo erfitt að taka eftir þessu. Menn flengjast um á jeppum, á snjósleðum eða öðru slíku um allar jarðir og ég hef nú reynt hvort tveggja. Ég man eftir þegar ég fór á snjósleða upp á Snæfellsjökul fyrir nokkrum árum og hugsaði með mér: Þetta geri ég aldrei aftur, að fara upp í þessa miklu og stóru og blíðu náttúru í svo miklum hávaða að það ærir óstöðugan. Hvernig á maður að njóta þessarar náttúrufegurðar í þeim hávaða sem þessi sleði framkallar og sleðarnir allt í kring, að sjálfsögðu? Þannig að ég verð að segja að hávaðamengun er nokkuð sem rænir okkur ákveðnum lífsgildum sem við ættum að hugsa um og missa ekki af, gildum sem að mínu mati efla okkur sjálf sem einstaklinga, gefa okkur betri heilsu bæði andlega og líkamlega og gefa okkur jafnframt næði til að vera með okkur sjálfum og náttúrunni. Ég er nú kannski orðin nokkuð hátíðleg en þetta er það sem ég hefði viljað koma á framfæri frá mínu brjósti.

Ég hef líka orðið vör við hávaðamengunina inni á veitingastöðum. Ein af mínum uppáhaldssöngkonum --- þar á meðal er Kiri Te Kanawa óperusöngkona en síðan kemur okkar ágæta Björk sem ég elska og finnst vera stórkostleg söngkona. Ég fór á tónleika með henni fyrir tveimur árum síðan í Laugardalshöllinni. Ég sat efst uppi og ég hef aldrei vitað annað eins, mér varð óglatt, hljóðhimnurnar á mér titruðu, mig svimaði og það lá við að ég þyrfti stuðning til þess að komast út. Músíkin var fín en þetta var svo mikill hávaði að það var nánast að æra óstöðugan að hlusta á þetta. Ég hef hins vegar keypt diskana hennar Bjarkar og hlusta á þá með mikilli ánægju í hæfilegu magni, þ.e. hljóðmagni.

Þetta ásamt ýmsu öðru, truflun sem fólk á erfitt með að þola í sambýlishúsum, sem ég hef líka þekkt, að unglingar eða fólk sem er að skemmta sér í sambýlishúsum og setur allt á fullt og það er ekki svefnfriður. Og það er eins og það megi ekkert gera, engir koma saman til að skemmta sér og engir fara út og slaka á öðruvísi en að einhver hávaði sér kominn á fullt, annaðhvort tónlist, snjósleðahávaði eða annar hávaði. Auk þess sem við búum í borg þar sem skipulag og mannvirki voru ekki hönnuð fyrir jafnmikla og þunga umferð og hún er orðin í dag. Þess vegna tel ég mjög brýna nauðsyn á að fara fram á mjög víðtæka úttekt á hávaðamengun um landið og setja okkur staðla og reglur um það hvert við getum farið með svona hávaðagripi, hvar við ónáðum ekki aðra og hvar við ónáðum heldur ekki sjálf okkur, því það hefur komið í ljós að þeir sem hafa verið mikið á skemmtistöðum og unnið á skemmtistöðum hvort sem er í hljómsveit eða annars staðar hafa iðulega skerta heyrn. Og hver þekkir ekki að hafa farið út að borða eða sest niður á skemmtistað einhverja stund með vini og að hafa orðið að kallast á yfir borðið og jafnvel halda um eyrun til þess að ná betra hljóði þegar talað er saman? Ég vil þess vegna biðja þingheim um að taka þessari þáltill. vel og að umhvn. muni taka hana alvarlega til íhugunar og afgreiða hana á þessu vorþingi því að ég held að það sé betra að taka á þessum málum fyrr en seinna.