Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 14:58:40 (3810)

1997-02-20 14:58:40# 121. lþ. 75.14 fundur 243. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:58]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki sérstaklega ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en fannst það bæði ljúft og skylt eftir að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir mælti sérstaklega til mín um hávaða varðandi tónlist og ég vil sérstaklega þakka henni fyrir það að telja mig vera einn af ástsælum poppurum þjóðarinnar og vona ég að það sé sannlega mælt.

En aðeins um hugsanlega hljóðmengun frá popphljómsveitum þá þekkjum við það að oft og tíðum er töluverður hávaði frá slíku. En mín reynsla er sú að sitt er hvað hávaði og hávaði. Ég þekki það af reynslunni að þar sem tónstilling er í lagi að það er ekki alltaf hægt að túlka það sem hávaða. Og eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kom inn á þá held ég, ef við setjum okkur t.d. í spor þeirra sem flytja tónlist, að menn séu oft og tíðum það ánægðir með það sem þeir eru að gera að þeir verði oft ekki fyrir miklum skaða af þeirri iðju.

Ég vildi bara segja að ég hef ekki orðið var við að tónlistarmenn hafi hlotið mikinn skaða af sinni tónlistariðkun. Ég þekki reyndar ekki dæmi um það þannig að ég vildi koma því að hér. En ég vil taka undir það sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði að tónlistarmenn hafa oftast nær mikla ánægju af því sem þeir eru að gera þegar þeir flytja tónlist og verða þar af leiðandi líklega ekki fyrir miklum skaða af þeim völdum.