Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:04:33 (3812)

1997-02-20 15:04:33# 121. lþ. 75.14 fundur 243. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:04]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka fyrir það sem hér hefur verið mælt um þessi mál, spaklega allt eða flest a.m.k., og góðar undirtektir við málið sem ég vona að verði til þess að það fái þinglega meðferð og afgreiðslu og helst sem næst því sem flutningsmenn leggja til.

Það má auðvitað bæta ýmsu við þetta, m.a. í ljósi þess sem hér kom fram í umræðunni. Mér þótti vænt um að menn tjáðu sig um persónulega reynslu því það er sá reynsluheimur sem miklu veldur um hvernig menn meta mengun af þessu tagi, hvernig menn reyna þetta á sjálfum sér og þess vegna er langt frá því að það sé ómerkt sem sagt er af eigin reynslu í þessu efni.

Vegna þess að rætt var um beinan skaða á heyrn og heyrnarskemmdir vegna hávaða þá hef ég hér í nefndu yfirliti sem ég dró fram úr Morgunblaðinu viðbrögð frá heyrnarlækni sem starfar sem yfirlæknir á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sem að vísu dregur í efa að það sem fram kemur í Der Spiegel og er rakið í blaðinu styðjist við alvarlegar rannsóknarniðurstöður. Það eru reyndar fleiri læknar sem kannast ekki við þetta, þ.e. áhrif á hjarta og hjartasjúkdóma sem er fjallað um í þessari grein Der Spiegel. En yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar segir um hávaða og heyrnarskemmdir, með leyfi forseta:

,,,,Þar eru mjög hreinar línur: Undir 80 dB skemmist ekki heyrn,`` sagði Einar. Hann benti á að stórir hópar fólks ynnu á stöðum þar sem jafngildishávaði er yfir 80 dB, sem er langt fyrir ofan 65 dB viðmiðunarmörkin.``

Þetta er sem sagt skoðun sérfróðs aðila á málinu. Ég vil nefna það hér að í umfjöllun umhvn. á síðasta þingi sem afgreiddi ekki þingmálið þá var m.a. leitað til heilbrigðisyfirvalda í Reykjavík og fulltrúar þaðan komu til fundar við nefndina. Þar var m.a. dregið fram yfirlit um fjölda kvartana til heilbrigðisyfirvalda um ýmis efni á árabilinu 1985--1994 og þar kemur fram að hávaðamengun er ofarlega í röðinni yfir tilefni umkvartana og númer tvö á árinu 1994, sem er síðasta ár þessa yfirlits, og á árinu 1992 er hávaðamengun í öðru sæti. Á árinu 1994 er loftmengun í fyrsta sæti. Hún er reyndar mun ofar og mjög ofarlega í þessu yfirliti sem segir sína sögu um loftgæðin í höfuðborg Íslands og hvernig menn reyna þau á sjálfum sér.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegur forseti, en ítreka þakkir til þeirra sem hér hafa talað sem og til meðflutningsmanna fyrir stuðning við málið þegar í upphafi. Ég vænti þess að þingnefnd fái þetta sem fyrst til efnislegrar meðferðar.