Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:24:18 (3814)

1997-02-20 15:24:18# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er tekin til umræðu er einstaklega þörf og tímabær og ég þakka flutningsmönnum fyrir að hafa sett hana fram, sérstaklega Svanfríði Jónasdóttur, 1. flm. Það er alveg ljóst að litið hefur verið fram hjá þeim vanda sem margir drengir eiga við að etja og það er líka ljóst að skilaboðin til stráka í gegnum myndbönd og ýmsa áhrifamiðla eru á þá lund að þeir eigi að vera sterkir, vera töffarar, vera ofurhugar, vera ofurelskhugar, vera ofur allt. Það er einnig ljóst að ýmislegt sem hefur verið talið sjálfsagt og eðlilegt varðandi uppvöxt strákanna er alls ekki eins einfalt og látið er af.

Mig langar í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að vísa til rannsóknar sem Ásþór Ragnarsson sálfræðingur gerði og hann kallar rannsóknina Goðsögnina um karlmanninn. Þar hefur hann tekið saman og skoðað hlutföll og þátt drengja í ýmsu sem maður getur sagt að horfi á verri veg og hann kallar það gjald karlmennskunnar. Þar hefur hann t.d. skoðað hlutfall drengja og stúlkna varðandi sérkennsluþörf í grunn- og framhaldsskólum og þörf á séraðstoð á dagvistarheimilum og þá kemur í ljós að aðeins fjórðungur þessa hóps er stúlkur, 3/4 hlutar eru drengir. Þegar hann skoðar hverjir eru gestir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskólanna, hverjir eru gestir Unglingaheimilis ríkisins, hverjir eru gestir sérstofnana, svo sem barna- og unglingageðdeildar, þá kemur í ljós að aðeins 1/3 af þessum hópi er stúlkur, 2/3 hlutar eru drengir. Þegar hann skoðar fjölda þeirra sem hafa farið í meðferð vegna áfengisvanda kemur í ljós að 80% þeirra eru drengir. Þegar skoðað er hverjir eru á skilorði eða undir eftirliti löggæslu eru drengirnir orðnir 86% og þegar skoðað er hvernig samsetning kvenna og karla er í fangelsum, þeirra sem afplána refsingu, og hann tekur árin 1985--1990, þá kemur í ljós að þeir sem afplána á þessum tíma eru 96% karlar. Þetta kemur okkur e.t.v. ekkert á óvart, að heyra um þessar tölur eða það sem kom fram í máli 1. flm., en það sem er athyglisvert er að of lítið hefur verið gert til að skoða samhengið í þessum málum og það er það sem lagt er til með þessari tillögu.

Þegar vísað er í þær tölur sem ég hef drepið á er alveg ljóst að þegar slíkar tölur eru settar fram er oft farið með þær á mjög einfaldan og tæknilegan hátt án þess að fjallað sé um hvað hafi valdið samhenginu. Það kom t.d. fram í könnun sem áfengisvarnaráð gerði að sýnt var fram á að þeir unglingar sem fyrst fara að drekka eru jafnframt þeir sem drekka mest síðar. Þetta er alveg rétt. En upplýsingarnar beina athyglinni að því að fyrirbyggja að unglingar byrji snemma að drekka. Hún beinir ekki athyglinni að vandanum sjálfum. Af hverju? Það er ekki spurt: Af hverju? Samhengið er annað.

Þessi mál hafa verið skoðuð erlendis, eins og kom fram í máli Svanfríðar Jónasdóttur, og erlendar kannanir sýna að unglingar, sem standa illa að vígi samskiptalega, skortir sjálfstraust eða ákveðna færni í samskiptum, fara frekar snemma að drekka og festast frekar í óheppilegu samskiptamunstri vegna þess að þau halda áfram að drekka eða neyta vímuefna. Aftur á móti þeir unglingar sem búa við gott sjálfstraust og ákveðna færni í samskiptum, þó að þeir unglingar byrji að drekka, þá ná þeir sér fremur út úr drykkjunni af því að þeir standa betur samskiptalega. Þetta hefur komið í ljós í erlendum könnunum. Það eru sömu unglingarnir sem eru í áhættuhópi varðandi vímugjafa og þeir sem reyna að leysa sín mál með ofbeldi og samhengið verður skiljanlegt þegar litið er á samskiptahæfnina eða skortinn á henni.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að drengir virðast vera í mjög óöruggri stöðu og margir þeirra hafa litla æfingu í félagslegum athöfnum, svo sem að veita öðrum umhyggju og að taka við umhyggju, leysa úr erfiðleikum, finna til og bregðast við. Það verður að segjast eins og er að þar hafa samskipti stúlkna allt frá fyrstu æviárum allt annað form. Stelpur eru opnari. Þær eiga yfirleitt hver aðra að trúnaðarvinum, þær byrja með það snemma og alveg fram til fullorðinsára temja konur sér að eiga sína trúnaðarvini þar sem þær geta losað sig við ýmislegt sem veldur óöryggi eða þjakar. Þetta gera drengir og karlmenn miklu síður.

Á karlaráðstefnunni í Stokkhólmi kom mjög vel fram að þegar staða kvenna og karla er borin saman er staða karla miklu dreifðari. Það er fámennur hópur karla, þó að hann sé fjölmennari en kvenna, sem er valdamikill og nýtur velgengni í samfélaginu. Á hinn bóginn eru margir karlar og mun fleiri en konur, sem eru valdalausir og vegnar illa í samfélaginu. Hlutfallslega standa mun fleiri karlar mjög illa að vígi, bæði hvað varðar áfengisneyslu, vímuefnaneyslu, þátttöku í ofbeldi, einsemd, afbrotum, sjálfsmorðum o.s.frv. Það er þess vegna mjög mikilvægt að skoða þá hluti og reyna að varpa ljósi á öryggisleysi ungra drengja vegna þess að þar erum við að taka á forvörnunum eins og við höfum komið að fyrr í dag. Grunnskólarnir hafa að einhverju marki verið að bjóða upp á efni sem á að hjálpa unglingum með ákveðinni þjálfun, hópastarfi og vera með jákvæð tilboð til unglinga sem standa höllum fæti, jafnt stelpna og stráka, en strákarnir eru greinilega miklu meira þurfandi. Við getum spurt hver á að gera þetta og við komum strax að skólanum, eins og kom fram í máli flutningsmanns. Þá erum við enn og aftur komin að því sem við höfum rætt fyrr í dag, því þýðingarmikla atriði að geta tekið félagslega þætti og þætti sem snúa að forvörnum inn í skólana og aftur gætum við tekið upp umræðuna frá í dag þar sem tímaskortur og tækifæri eru of lítil fyrir góða kennara að reyna að taka á þessum málum.

Ég er alveg sannfærð um að sú niðurstaða mun skila sér inn í breyttar áherslur í skólanum verði þessi tillaga samþykkt og þegar nefndin sem lagt er til að vinni með málið hefur skilað áliti.