Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:41:07 (3816)

1997-02-20 15:41:07# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru mjög athyglisverð atriði sem komu fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og ég ætla að víkja að því sem hann hafði orð á, þunglyndi og sjálfsvígum. Það er mjög alvarlegur hlutur hjá því velmegunarþjóðfélagi sem við tölum oft um. Vandi okkar er sá að við þekkjum ekki hvernig þessum hlutum var háttað fyrr á tímum vegna þess að það eru ekki til neinar rannsóknir eða tölur til að bera saman við fyrri tíma, en við erum hins vegar að fá vitneskju um stöðugt fleiri tilfelli af sjálfsvígum ungs fólks.

Hins vegar var gerð mjög ítarleg könnun af prófessor Þórólfi Þórlindssyni fyrir tveimur eða þremur árum. Hann gerði þessa könnun meðal allra nemenda í ákveðnum bekk í öllum skólum landsins. Þar komu fram mjög sláandi upplýsingar. Það var ótrúlega hátt hlutfall nemenda sem hafði íhugað sjálfsvíg. Það voru mjög margir sem þekktu jafnaldra sem höfðu framið eða íhugað alvarlega sjálfsvíg. Það væri mjög fróðlegt að skoða þá skýrslu eða niðurstöðu Þórólfs hvort hægt er að sjá á þeim niðurstöðutölum hvort tölur eru hærri í sjávarþorpum en annars staðar eða hvort hið nána samfélag á smærri stöðum geri ógæfuna sýnilegri af því að allir þekkja alla, ógæfu sem falin er í stærri bæjum og ekki talað um og þess vegna virðist svo sem þessir hlutir séu verri á ákveðnum stöðum eins og hann nefndi. Það væri vissulega ástæða til þess að biðja um að það væri athugað með lestri út úr þessari könnun hvort vísbendingar séu um slíkt. Ég á þessa skýrslu. Ég er ekki með hana við höndina og vil þess vegna ekki fara með neinar upplýsingar um hlutföll en þau hlutföll sem ég hef nefnt voru mjög há.