Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:43:33 (3817)

1997-02-20 15:43:33# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:43]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um stöðu drengja í grunnskólum. Sú sem hér stendur er meðflutningsmaður að tillögunni en 1. flm. er Svanfríður Jónasdóttir eins og fram hefur komið í umræðunni.

Eftir að hafa starfað í nefnd um jafna stöðu kynja í skólum um fjölmörg ár og hafa stundað rannsóknir sem háskólakennari um menntun og kynferði, þá er efni þessarar tillögu mér mjög kunnugt og endurspeglar að mínu mati vel hvers vegna umræða um jafnréttisfræðslu í grunnskólum á eins erfitt uppdráttar og raun ber vitni. Þó að flestar rannsóknir bendi til að t.d. í kennslubókunum sé staða drengja mun betri en staða stúlkna, þar eru oft mjög hefðbundnar ímyndir af stúlkum og niðurlægjandi ímyndir, og þó að rannsóknir bendi til alveg ótvírætt eins og fram kemur í greinargerð að athygli kennara beinist meira að drengjum en stúlkun, bæði reyndar jákvæð og neikvæð athygli, hvort sem um er að ræða svör við fyrirspurnum eða agafyrirskipanir og skammir, þá standa stúlkur í grunnskólum sig að meðaltali betur, bæði námslega og félagslega, og þar á ég einnig við hegðun í tímum hvort sem ætlast er til að þær sitji og hlusti, þær vinni sjálfstætt eða taki þátt í hópstarfi. Þar af leiðandi eru það drengirnir sem þurfa meiri sérkennslu og sálfræðiaðstoð.

Þó að til séu ýmsar skýringar á þessu eins og þær t.d. að fínhreyfingar drengja þroskast síðar en stúlkna, m.a. vegna mismunandi leikja, og einnig hefur verið bent á það að drengir fæðist að meðaltali stærri og því sé meiri hætta á fæðingaráverkum sem sumir vilja tengja sérkennsluþörf þeirra við, þá þykir ljóst að það eru einnig félagslegar og sálfræðilegar orsakir sem hér er um að ræða og sem margar hverjar eru nefndar í ágætri greinargerð með tillögunni. Þetta kallar á ákveðna vorkunn kannski meðal kennara gagnvart drengjum sem um leið virðast ekki átta sig á því hvað það er sem stúlkur eru að læra í leiðinni ef þær eiga bara alltaf að sitja, vera prúðar og bíða, og hvernig nám þeirra er í raun og veru truflað.

Það hefur verið í menntamálaumræðunni allt frá aldamótum hvort samkennsla kynjanna sé æskileg eða ekki. Þegar heimspekingurinn John Dewey var t.d. að reyna að sannfæra ameríska foreldra um réttmæti þess að kenna stelpum með strákum í skólum, sem ekki tíðkaðist rétt fyrir aldamótin í Bandaríkjunum, þá lagði hann áherslu á það að stúlkur mundu aga strákana til, það yrði svona þægilegra að eiga við bekkina en lagði minni áherslu á að það yrði að sjá til þess að nám stúlknanna truflaðist ekki. Það kemur í ljós að það er oft auðveldara að kenna blönduðum bekk heldur en strákabekk en það þarf ekki endilega að vera auðveldara að kenna blönduðum bekk heldur en stelpubekk.

Ég er hér með tvær nýlegar úrklippur úr Morgunblaðinu sem segja frá tilraunum á þessu sviði hér á landi. Önnur er frá því 27. ágúst og þar er sagt frá tilraunum til að skipta bekkjum eftir kynjum í norskum framhaldsskólum. Tilgangurinn þar var að breyta hefðbundnu námsvali kynjanna. Það kemur nefnilega í ljós að ef um kynskipta skóla er að ræða í framhaldsskólum eða jafnvel háskólum, þá fara stúlkur frekar t.d. í raungreinar og drengir eða karlmenn frekar í ýmsar húmanískar greinar. Þetta mætti t.d. vel hafa í huga sambandi við tölvukennslu og hefur komið í ljós líka í sambandi við raungreinakennslu. Það kemur sér oft betur að aðskilja kynin til þess að bæði kynin geti lært út frá sínum forsendum.

Hin greinin er frá 28. janúar 1997 og fjallar um kynskipta kennslu í stærðfræði í Tjarnarskóla eins og fram kom hér áðan hjá flm. en það hafði í för með sér að einkunnir stúlkna hækkuðu. Það eru fjölmennar rannsóknir sem sýna þetta. Einnig má nefna tilraunina sem nefnd var áðan frá Akureyri um kynskipta bekki í efri bekkjum grunnskóla sem kom einmitt betur út fyrir stúlkurnar heldur en drengina.

Það er ljóst að aðskilnaður kynjanna mundi veita stúlkum meiri frið til náms en af félagslegum ástæðum hefur þótt eðlilegra almennt að kenna kynjunum saman nema í einstaka greinum eins og leikfimi, handavinnu og nú í vaxandi mæli í raungreinum og slíkt hefur einnig gefið góða raun í kynfræðslu og í tungumálakennslu því að umræðuefni kynjanna eru oft dálítið mismunandi og þau eru hispurslausari að tjá sig á erlendu tungumáli ef þau eru í stelpnahópum en strákahópum. Það þykir orðið alveg eðlilegt í kennaranámi t.d. að kenna þetta sem eina leið til námsaðgreiningar, að taka nemendur eftir kynjum í einstaka greinum og því tel ég nauðsynlegt að reyna að taka mjög markvisst á náms- og hegðunarvandamálum drengja í grunnskólum eins og tillagan gerir eiginlega ráð fyrir, auðvitað fyrst og fremst drengjanna sjálfra vegna en ekkert síður stúlknanna vegna því að það sem stúlkurnar læra við þessar aðstæður er að þegja og læra sjálfar í stað þess að spyrja og fá svör og athygli og sú reynsla virðist há þeim á efri skólastigum þegar námsefni þyngist og réttur skilningur fæst ekki svo auðveldlega hjá meðalnemendum nema með því að spyrja kennara og vera í virkum samskiptum. Það hefur einnig komið í ljós að þó að stúlkurnar sýnist prúðar og vandamálalausar í grunnskólum, þá virðast þær frekar hefta sín vandamál en þau birtast síðan sem geðræn vandamál á unglingsárum, samanber anorexíu og búlimíu, þ.e. það er ekkert sem segir það að stúlkur séu ekki líka viðkvæmar tilfinningalega, það bara birtist síðar og öðruvísi hjá stúlkum.

Þess vegna tel ég, herra forseti, að þessi tillaga sé mjög mikilvæg (Forseti hringir) og ekki síður vegna þess að líklegt er að orsaka sé að leita í uppeldisaðstæðum m.a. feðra.

Ég hef hér lokið tíma mínum, herra forseti, og mun því óska eftir að ljúka ræðunni á eftir.