Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:04:22 (3820)

1997-02-20 16:04:22# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:04]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. frsm. og 1. flm. þessarar tillögu fyrir hana og þá framsögu sem hún hafði fyrir málinu en tek engu að síður undir það álit sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. þess efnis að þó að vissulega sé þörf á því að leita sérstaklega orsaka þess að drengir eigi við meiri félagsleg vandamál að búa í skólum heldur en stúlkur, þá sé stór hópur stúlkna sem þarf á því að halda að gerð sé úttekt á þeirra stöðu innan skólans eða hvernig skólinn meðhöndlar vandamál sem upp koma hjá mjög stórum hópi stúlkna í grunnskóla og þá jafnframt velta því fyrir sér að það mætti hugsanlega breyta þessari ályktun í þá veru að hún tæki á báðum þessum þáttum og þarna væri um að ræða tillögu sem fæli það í sér að fram færi rannsókn á hlutverki skólans og hvernig skólinn sinnti best hlutverki sínu bæði fyrir stúlkur og drengi, hugsanlega með því að skipta niður bekkjum eftir kynjum. Það eru ekki mjög ár síðan að mér fannst slík hugmynd vera fráleit en eins og kom fram í máli hv. þm. áðan hefur mjög margt stutt það á síðari árum að hugsanlega sé það sem til þarf til þess að hægt sé að sinna kennslunni og uppeldishlutverki skólans sem best.

Þegar maður kemur í heimsókn í grunnskóla og sér hangandi þar uppi á töflu auglýsingar frá svokölluðum fyrirsætuskólum þar sem óskað er eftir stúlkum 14 ára og eldri til fyrirsætustarfa, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé í raun hlutverk grunnskólans að ýta undir það að ungar stúlkur, stúlkur á þessum aldri sem hafa e.t.v. ekki þann þroska til að bera til að takast á við ýmislegt sem því fylgir að fara út í störf fyrirsætu, hvort það sé hlutverk grunnskólans að ýta á eftir lítt þroskuðum ungum stelpum til að fara inn á þessa braut. Í greinargerð sem fylgir þáltill., segir m.a.:

,,Drengir fá skilaboð frá umhverfinu um hvers konar manneskjur þeir eigi að vera. Bæði fagfólk og foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af því að í nútímasamfélagi sé drengjum boðið upp á stöðugt verri fyrirmyndir og að hetjuímyndin verði sífellt ofbeldiskenndari.``

Þetta er alveg hárrétt og ég held að það sé líka rétt að foreldrar hafi verulegar áhyggjur af því að fyrirmyndir drengja séu sífellt ofbeldiskenndari en engu að síður er hitt líka áhyggjumál ef foreldrum finnst það kannski alls ekki vera af hinu verra ef fyrirmyndir stúlkna, myndir sem hengdar eru uppi á vegg í skólum, séu íturvaxnar fyrirsætur meira og minna úr sílíkoni. En það er að gerast í grunnskólum landsins í dag að þeir taka margir hverjir gagnrýnislaust við auglýsingum frá þessum skólum og hleypa umboðsmönnum fyrirsætuskóla inn í skólana til þess að tala við stúlkurnar og mæla þær, vega og meta hvort þær eigi einhverja möguleika í framtíðinni sem fyrirsætur. Í greinargerðinni segir enn fremur:

,,Jafnréttisbaráttan hefur aðallega verið háð af konum.`` --- Það er rétt. --- ,,Hún hefur leitt til þess að losnað hefur um staðlaða ramma kvenímyndarinnar og staða kvenna hefur að ýmsu leyti breyst.`` Það sem ég óttast að sé að gerast og maður hefur séð ákveðna tilhneigingu til á síðustu árum er að þetta sé að breytast aftur, því miður, og aukin áhersla sé lögð á það við stúlkur að framtíðin sé fólgin í því að útlitið sé vegið og metið af þar til gerðum sérfræðingum og ákveðið hvernig fæðið skuli vera og útlitið og hegðun, framganga og annað. Þess vegna held ég að það sé löngu tímabært að ræða það hvert sé hlutverk skólans. Er það hlutverk skólakerfisins að ýta undir slíka þróun eða á að setja bara fastmótaðar reglur þess efnis að grunnskólinn eigi undir engum kringumstæðum að taka þátt í eða stuðla að starfsemi eins og þessari? Án þess þó að ég sé að segja að starfsemi skóla eins og fyrirsætuskóla sé alvond, þá er mjög hættulegt að ýta grunnskólabörnum inn á þessar brautir. Þau hafa engan þroska til að bera til þess að takast á við þessi störf. Ég óttast það hins vegar að viðhorf foreldra séu kannski svolítið önnur einmitt gagnvart þessari starfsemi heldur en því þó að þeim fyrirmyndum sem skólinn er hugsanlega líka að ýta undir að drengir hafi með sýningu á myndböndum og eins með plakötum sem má sjá á töflum hangandi í skólum þar sem eru myndir af þessum fyrirmyndum drengjanna ekkert síður en stúlknanna.

Ég hefði viljað sjá þessa tillögu víðtækari þannig að við gætum sett um það mjög skýrar reglur hvert sé hlutverk grunnskólans, hvernig því verði best sinnt og þá í þágu beggja kynja því að mér finnst það vera fráleitt að skólarnir taki og beri á einhvern hátt ábyrgð á tilurð þeirra fyrirmynda sem verða, hvort sem um er að ræða drengi eða stúlkur. Síðast í dag fékk ég hringingu frá kennara í skóla á Vesturlandi sem var að benda mér á að nú væri komin enn ein auglýsing frá enn einum tískuskólanum þar sem ungar stúlkur, 14 ára gamlar væru hvattar til þess að fara út í fyrirsætustörf, en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og málum að sjálfsögðu. Þetta kostaði verulega peninga, það kæmu sendiboðar frá þessum skólum og ýttu stúlkunum inn á þessar brautir, en mjög margir foreldrar sem vildu jafnvel heimila sínum litlu stelpum að fara í skólana hefðu ekki efni á því, þetta væri mjög dýrt nám og síðan væru þessir óþroskuðu unglingar sendir út í heim í prufumyndatökur og keppni.

Ég tel að það sé mjög hæpið að grunnskólinn eigi á nokkurn hátt að stuðla að því að slík ákvörðun sé tekin um framtíð 14 ára gamallar stúlku.