Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:20:57 (3822)

1997-02-20 16:20:57# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:20]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og lýsa ánægju með hvernig hún hefur gengið til. Það er full ástæða til að vekja athygli á þessum málum eins og öllu sem lýtur að velferð einstaklinga og fjölskyldna í þjóðfélaginu.

Það er líka nauðsynlegt að athuga það að áhrif hinna eldri, þeirra sem ráða mestu í samfélaginu séu holl og heilbrigð gagnvart þeim sem ungir eru og eru neytendur eða þolendur en séu ekki hið gagnstæða. Það eru ekki börn eða ungt fólk sem framleiða ofbeldismyndirnar, það eru ekki þau sem framleiða allan þann óþverra sem berst að vitum þeirra í ýmsu formi. Þau eru saklausir neytendur og þolendur og á að sjálfsögðu við bæði kynin hið sama. En tölurnar liggja fyrir, eins og fram kom í framsögu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, og þær eru sláandi um mismun kynjanna þegar tekur til ýmissa vandkvæða á ungum aldri.

Vegna þess að talað var um erfiðleika drengja á unglingsárum langar mig til að geta þess að nefnd sem skipuð var 1992 gerði ítarlega og góða könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga á Íslandi. Formaður þeirrar nefndar var Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri, en átta manns sátu í nefndinni. Hún skilaði á síðasta ári niðurstöðum sínum og er þar margt fróðlegt að finna og ég vek sérstaka athygli á þessari skýrslu. Þar segir um helstu niðurstöður nefndarinnar að mikilvægt sé að nálgast sjálfsvígsvandann með því að leggja áherslu á almenna heilsueflingu sem stuðli að betri líðan, bættum fjölskyldu- og jafningjatengslum og heilbrigðari lífsháttum. Það segir einnig í niðurstöðunum að nauðsynlegt sé að bæta greiningu og meðferð á þunglyndi og taka þurfi aukið tillit til sjálfsvígsáhættu við áfengis- og fíkniefnameðferð þar sem þunglyndi og áfengisneysla séu þættir sem hafa sterkust tengsl við sjálfsvíg.

Í vinnu fjárln. á haustmissiri var tekinn inn liður nr. 999 undir menntmrn. og veittar 5 millj. kr. til að standa undir kostnaði við sérstakt sérfræðingateymi en það er einmitt slíkt sérfræðingateymi sem nefndin leggur til að verði skipað til þess að skipuleggja forvarnastarf í skólum hvað varðar áfengis- og fíkniefnanotkun og fleira því tengt í félagslegum vandkvæðum. Ég vænti þess því að starfið sé þegar hafið og auðvitað er sífellt starf í gangi um rannsóknir og athuganir á þessu þannig að betur megi fara og betur gera.

Þá vil ég aðeins vekja athygli á einu til viðbótar í niðurstöðu þessarar nefndar. Það eru staðreyndir á töflum þar sem vitnað er í Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sem einnig gerði ítarlega könnun í mars 1992 á lífsviðhorfum íslenskra unglinga í 9. og 10. bekk grunnskóla, þ.e. 14--16 ára. Sérstaklega var leitað þátta sem sagt er að hafi forspárgildi fyrir sjálfsvígsatferli. Spurningunum svöruðu sjö af hverjum átta unglingum í landinu. Spurt var um sjálfsvígstilraunir og það kemur á óvart að fleiri stúlkur en drengir höfðu gert sjálfsvígstilraunir, þ.e. 8,2% stúlkna en 4,8% drengja. Þetta bendir til þess að vandinn sé einnig fyrir hendi hjá stúlkunum, jafnvel jafnmikill, ég veit það ekki, það mun koma í ljós verði betur kannað. En ég vek sérstaka athygli á því að sjálfsvígstilraun hlýtur að vera hróp á hjálp og það eru nærri helmingi fleiri stúlkur en drengir sem reyndu sjálfsvíg árið 1992.