Menningarráð Íslands

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:43:19 (3826)

1997-02-20 16:43:19# 121. lþ. 75.11 fundur 184. mál: #A Menningarráð Íslands# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:43]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Hjálmari Árnasyni, fyrir kynninguna á þáltill. um stofnun Menningarráðs Íslands. Vonandi leiðir þáltill., ef samþykkt verður, til faglegrar umfjöllunar um menningarmál í landinu og verði brú á milli listamanna annars vegar og stjórnvalda hins vegar og í raun formlegur umræðuvettvangur um menningu og listir, en þennan umræðugrundvöll hefur vantað í íslenskt þjóðfélag. Það hefur reyndar oft myndast tortryggni á milli þessara starfsstétta því að þegar fjallað er um list, þá er þetta huglægt mat og það getur oft verið erfitt að greina á milli kjarnans og hismisins og ekki síst fyrir leikmenn.

Gert er ráð fyrir því að Menningarráð Íslands verði sameiginlegur vettvangur stjórnvalda og þeirra sem að menningarmálum starfa. En hlutverk menningarráðs er þríþætt samkvæmt þáltill.:

1. að móta heildarstefnu í menningarmálum, en eins og fram kom í ræðu hv. þm. hefur þessa stefnu vantað í íslensku samfélagi,

2. að veita stjórnvöldum ráðgjöf á sviði menningarmála,

3. að skipa ásamt menntamálaráðherra fagnefndir sem komi til með að skipta fjármagni sem veitt er á fjárlögum til einstakra þátta menningarmála.

Ég sit einmitt í fjárln. og veit að það er oft mjög erfitt að meta hvaða einstök verkefni eru styrkhæf og hver ekki. Stundum virðist úthlutunin tilviljanakennd og jafnvel duttlungum háð. Það er oft mjög erfitt fyrir okkur að meta hve miklu fé skal verja t.d. til Þjóðleikhússins, til Sinfóníuhljómsveitarinnar eða einstakra verkefna og þá kemur í ljós að við greiðum fleira niður heldur en landbúnaðarvörur, laun í landinu o.s.frv. vegna þess að við erum líka að greiða niður menningu í landinu. Og í raun og veru er ekkert athugavert við það.

[16:45]

Öflugt, fjölbreytt menningarlíf styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og þá segi ég þjóðarinnar allrar, ekki einungis höfuðborgarsvæðisins heldur landsins í heild. Þess eru mýmörg dæmi að ákveðin byggðarlög öðlist jákvæða menningar\-ímynd út frá þeirri menningarstarfsemi sem fram fer á viðkomandi svæðum. Við getum nefnt karlakóra, kvennakóra, samkóra, leiklist og ýmislegt fleira sem tengist auðvitað alþýðulistinni og einnig list atvinnumannanna.

Það hefur reyndar farið hljótt að einstakir tónlistarskólar úti á landsbyggðinni starfa á háskólastigi, þ.e. að þeir útskrifa nemendur með lokapróf áttundu gráðu. Þetta hefur reyndar ómælt menningarlegt gildi fyrir viðkomandi svæði. Þetta á t.d. við um tónlistarskóla Rangæinga en forsvarsmenn skólans fagna 40 ára afmæli hans um þessar mundir.

Ég vil líka nefna að oft eiga listamenn sem starfa úti á landi erfitt með að fá tækifæri til þess að fá verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á við um tónlistarmenn, myndlistarmenn og leiklistarfólk. Það skiptir okkur miklu máli sem úti á landsbyggðinni búum að skapa listamönnum aðstæður við hæfi ekki síður en hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að við getum notið krafta þeirra sem skyldi. Hæstv. forseti Íslands kallar gjarnan til sín listafólk til listflutnings við ýmis tækifæri. Ég skora á forsetann að horfa einnig til listamanna sem úti á landsbyggðinni búa þegar listamenn eru valdir til listsköpunar á Bessastöðum.

Ég vonast til þess að þáltill. fái farsæla umfjöllun og verði sú brú milli listamanna og stjórnvalda sem flutningsmenn ætlast til.