Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:09:55 (3834)

1997-02-24 15:09:55# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir athugasemdir Margrétar Frímannsdóttur þingmanns vegna þess að það er mjög óvanalegt að bregðast svona við beiðni um skýrslu sem svona miklu máli skiptir og hefur verið jafnmikið í umræðunni á Alþingi eins og lífskjörin í landinu sem eru tengd miklu vinnuálagi og hve vinnudagur er langur hérlendis miðað við nágrannalöndin. Það er dálítið undarlegt, virðulegi forseti, að í upphafi skýrslunnar er sagt, með leyfi forseta:

,,Áhrif langs vinnutíma á kjör launafólks eru öllum kunn. Langur vinnutími eykur ráðstöfunartekjur eins og greinilega kom fram í samanburðarkönnun á lífskjörum hér á landi og í Danmörku sem var lögð fyrir Alþingi í vor. Þó verður að vekja athygli á því að upplýsingum um raunverulegan vinnutíma hér á landi er að ýmsu leyti áfátt eins og ...`` félmrh. hefur greint hér frá.

Megnið af skýrslunni eða um það bil helmingur af þessum fjórum síðum vísar í erlendar kannanir og þar segir að í sænskri niðurstöðu komi fram að stytting vinnutíma leiði til minni framleiðslu.

Við hljótum að staldra við það, virðulegi forseti, að hér á landi er vinnutími mjög langur miðað við samanburð sem kom fram á þingi í fyrra. Þá voru vikulegar vinnustundir okkar eitthvað um 55 á móti innan við 40 í nágrannalöndunum. Það er alveg ljóst að ef svo lítil vitneskja er um vinnutíma á Íslandi að ekki er hægt að svara öðruvísi en svona þá hljótum við að gera kröfur um að ráðherranum séu fengin þau meðul í hendur að hann geti aflað þessara upplýsinga. En að ráðherrann skuli svara þannig, með leyfi forseta:

,,Ítarlegri og umfangsmeiri úttekt krefst umtalsverðra fjármuna og mannafla. Ef Alþingi telur brýnt að ráðast í slíka úttekt er ekki óeðlilegt að hún verði framkvæmd á grundvelli sérstakrar þingsályktunar.``

Þetta þýðir að ef stjórnarandstaðan ber fram þingsályktun þá nær hún ekki fram að ganga. Það er reynsla okkar, virðulegi forseti.