Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:12:19 (3835)

1997-02-24 15:12:19# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ákvæði um skýrslugjöf samkvæmt kröfu ákveðins hluta alþingismanna hefur lengi verið í lögum um þingsköp. Fyrstu árin og lengi framan af var þetta ákvæði eiginlega aldrei notað. Það heyrði til undantekninga að beðið væri um skýrslu á þann hátt sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Á síðustu árum hefur þetta hins vegar færst mjög í vöxt og mörg dæmi eru um að Alþingi samþykkir skýrslubeiðni sem er mjög yfirgripsmikil og tekur gríðarlegan tíma og kostar umtalsverða fjármuni að vinna úr. Ráðuneyti hafa oft og iðulega þurft að kaupa sér sérfræðiaðstoð til að vinna slík verkefni. Ég tel mjög eðlilegt að forsn. fjalli um þessi mál vegna þess að það er mjög eðlilegt að þegar beðið er um skýrslu og hún samþykkt á Alþingi sem kostar Stjórnarráðið umtalsverð útgjöld, svo maður tali nú ekki um ef það þarf að kaupa að vinnu fyrir verulegt fé, þá sé það Alþingi sem greiði þann kostnað af rekstrarfé þingsins. Mér finnst því mjög eðlilegt að forsn. taki þetta mál upp til skoðunar. En mér finnst jafnóeðlilegt að hæsv. félmrh. skuli skila svari eins og hann gerði í stað þess að hafa þá tal af forsn. og gera henni grein fyrir því að ráðuneyti hans treysti sér ekki til að vinna svona umfangsmikla könnun eins og þarna var beðið um nema þá að Alþingi sem samþykkt hefur þetta verkefni sjái til þess að greiða að minnsta kosti þann kostnað sem félmrn. þyrfti að greiða öðrum utan sinna vébanda fyrir slíka vinnu. En ég tel alveg nauðsynlegt vegna þess hve það er orðið algengt að biðja um skýrslu og hve sú skýrslubeiðni er oft viðamikil að forsn. taki þetta mál til sérstakrar skoðunar.