Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:14:23 (3836)

1997-02-24 15:14:23# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:14]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Í tilefni af þessari umræðu vill forseti taka þetta fram. Réttur alþingismanna til að biðja um skýrslu ráðherra um tiltekið efni hefur staðið lengi í stjórnarskrá og þingsköpum eins og hér hefur raunar komið fram. Það hafa komið í ljós ýmsir annmarkar á framkvæmd þessa ákvæðis þingskapa, þ.e. 46. gr. þar sem kveðið er á um beiðni um skýrslu. Hefur bæði gætt óánægju meðal þingmanna sem telja m.a. að skýrslurnar berist að jafnaði of seint og meðal ráðherra sem telja oft að skýrslubeiðnirnar séu allt of viðamiklar og markmið með þeim óskýrt. Um þessi atriði ætlar forseti ekki að dæma en ljóst er að taka þarf þetta þingskapaákvæði til rækilegrar athugunar og er þá eðlilegast að sú athugun fari fram í sambandi við endurskoðun þingskapalaga sem raunar stendur yfir. Það er hins vegar meginsjónarmið forseta að farið sé að þingsköpum og í þessu tilfelli að ráðherrar láti þann tímafrest sem gefinn er, 10 vikur, sníða skýrslugerðinni stakk og við það verða þingmenn líka að una.