Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:15:45 (3837)

1997-02-24 15:15:45# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:15]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það er mjög sérkennilegt að heyra núv. og fyrrv. ráðherra vera að stynja yfir því að beðið sé um skýrslur um hluti eins og kjör launafólks og framleiðni fyrirtækja og annað það sem hér er beðið um. Eðlilegast væri að ráðherrar sjálfir sæju um að útvega sér skýrslur um þessi mál. Hitt er annað mál að vel gæti svo farið að ég færi að taka það að mér að biðja um skýrslur um skýrslur sem gerðar hafa verið vegna þess að það kemur mér afskaplega mikið á óvart að það sé ekkert til um lengd vinnutíma á Íslandi. Þetta hefur margkomið fram í alls kyns skýrslum bæði innlendum og erlendum. Þetta hefur komið fram í skýrslum um jafnréttismál. Ég er ansi hrædd um að það sé orðið svo mikið af skýrslum til að menn séu steinhættir að lesa þetta. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er kjararannsóknarnefnd ekki til enn þá? Það væri fróðlegt að vita hvað hún er að hafast að. Ég man ekki betur en að það bærust skýrslur frá henni með jöfnu millibili. Nú kann að vera að ég sé illa upplýst og hún sé aflögð. En ég er illa svikin ef þessar upplýsingar liggja ekki fyrir, hæstv. forseti. Og framleiðni fyrirtækja og afkoma þeirra. Á að fara að segja mér hér að það sé ekkert um þetta vitað? Það er ekki von að mönnum gangi vel að stjórna landinu ef þeir vita ekkert um hvað er að gerast þar.