Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:39:44 (3843)

1997-02-24 15:39:44# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Vegna þess að utanrrn. hefur blandast inn í þetta mál þá vil ég taka eftirfarandi fram:

Þann 4. desember sl. fór ég þess óformlega á leit að varnarliðið kannaði hvort þeir gætu hjálpað til við rannsókn á því hörmulega slysi sem varð þegar Æsa ÍS-97 fórst í mynni Arnarfjarðar 25. júlí 1996. Í framhaldi af því fór varnarmálaskrifstofan þess formlega á leit við varnarliðið með bréfi dags. 13. janúar sl. að kannað yrði hvort köfunarsveit varnarliðsins gæti kafað niður að flaki rækjubátsins Æsu ÍS-97. Niðurstaða gaumgæfilegra athugana varnarliðsins liggur nú fyrir. Báturinn liggur á 250 feta dýpi en hámarksdýpi sem köfunarsveit varnarliðsins getur unnið á er 190 fet. Til að kafa niður að bátnum þarf sérútbúnað og sérþjálfaða kafara sem yrði að flytja frá Bandaríkjunum til Íslands samfara kostnaði sem er það mikill að slík aðgerð fengist ekki samþykkt af hálfu yfirstjórnar bandaríska flotans. Sérútbúnaður þessi sem ekki er til staðar á Keflavíkurflugvelli samanstendur af köfunarkúlum og smákafbátum.

Það er rétt að taka fram í þessu sambandi að varnarliðinu var mjög umhugað um að reyna að leysa þetta verkefni ef það gæti verið innan getumarka köfunarsveitarinnar á Keflavíkurflugvelli og var reiðubúið til að leggja í talsverðan kostnað því samfara. Þessi athugun hefur tekið alllangan tíma og það skýrist af því að varnarliðinu var mjög umhugað um að geta leyst þetta verkefni. Niðurstaðan liggur nú fyrir og lá fyrir í lok síðustu viku . Og ég verð því miður að tilkynna að varnarliðið treystir sér ekki til þess að leysa þetta verkefni og því verður að skoða málið í ljósi þess.