Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:47:18 (3846)

1997-02-24 15:47:18# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:47]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það slys sem hér er rætt um, mannskaða- og skipstapamálið þegar Æsa sökk á Arnarfirði, hefur vakið margar spurningar. Það er full ástæða til að taka undir að gengið verði í það eins og hægt er að freista þess að kanna aðdraganda þess slyss.

Ég vil nefna dæmi sem kannski léttir leiðina í því hve mikilvægt er að taka á þessum málum. Haförn heitir skip, VE-21, 59 brúttólesta skip sem var smíðað 1959. Síðustu eigendaskipti urðu fyrir nokkrum árum þegar ungir athafnamenn keyptu það skip og hófu róðra árið 1994. Þeir sáu mjög fljótt að eitthvað var að skipinu og treystu sér ekki til að sækja eins og þeir höfðu stundað sjó á öðrum skipum um árabil. Þeir báðu um úttekt á skipinu frá Siglingamálastofnun. Í ljós kom við þá skoðun að skipið var ekki hæft til að vera á sjó og nánast undarlegt að það skyldi ekki hafa sokkið fyrir löngu. Þá spyr maður: Hvernig gat slíkt komið upp að það lá ekki fyrir fyrr, vegna þess að þegar eigendurnir keyptu skipið árið 1994 hafði það haffæriskírteini frá Siglingamálastofnun og engar athugasemdir var að finna í tölvugögnum stofnunarinnar. Síðan þegar leyfið er tekið af skipinu kemur í ljós að það þarf að gera miklar breytingar á því. Það þarf að fjarlægja 10 tonn af þilfari þessa litla skips, 59 brúttólesta skips. Það eitt kostaði margar millj. kr. Aðalatriðið var þó að ekki hafði orðið skipskaði en þetta sýnir að það þarf víða að taka á og það er víða pottur brotinn í þessum efnum og augljóst (Forseti hringir.) að þetta gengur ekki upp.

Því miður er ekki hægt á stuttum tíma eins og hér að fjalla um mörg atriði sem full (Forseti hringir.) ástæða væri til að taka upp, til að mynda 15 ára sleifarlag í framgangi sjálfvirks sleppibúnaðar í skipaflota landsmanna.

Ég vil að síðustu hvetja hæstv. samgrh. til þess að láta nú framkvæma hallamælingar á öllum íslenskum skipum 15 metra og (Forseti hringir.) yfir. Slíkt var gert í litlum bátum fyrir nokkrum árum. Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

(Forseti (ÓE): Tíminn er löngu búinn.)

Já, en hér er slíkt mál að það er ekki hægt annað en að fá að segja staðreyndir sem skipta miklu máli og varða öryggi sjómanna.

(Forseti (ÓE): Það á ekki að brjóta þingskapalög þó það séu mikilvæg mál.)

Neyðin brýtur lög.

(Forseti (ÓE): Tíminn er úti.)

Ég endurtek áskorun mína til samgrh. að taka á þessu máli og láta hallamæla flota landsmanna.

(Forseti (ÓE): Það eru það margir hv. þm. á mælendaskrá að forseti ætlast til að menn gæti tímamarka annars komast ekki allir að.)