Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:56:59 (3850)

1997-02-24 15:56:59# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:56]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Niðurstaða mín eftir að hafa hlýtt á ræður þingmanna í þessari umræðu er sú að það er almennur vilji þingheims að gera betur en hingað til hefur verið gert, að verja meiru fé til rannsóknarnefndar sjóslysa og leggja meiri áherslu á en verið hefur að upplýsa mál. Ég vil þakka þingmönnum fyrir hlý orð í minn garð í þessari umræðu.

Í öðru lagi kom fram hjá hæstv. samgrh. að samkvæmt tilboði sem honum hefði borist kostaði um 32 millj. kr. að lyfta skipinu Æsu upp af hafsbotni. Það þýðir að það er tæknilega mögulegt eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á.

Í viðtali í Morgunblaðinu sl. miðvikudag upplýsir formaður rannsóknarnefndar sjóslysa að nefndin hafi látið kanna þennan kostnað fyrir sig og niðurstaðan þar hafi verið 20 millj. kr. Þannig að ég segi og held mig við það sem fram kom í fyrri ræðu minni, að þetta er hægt og fjárhæðin er ekki af þeirri stærðargráðu að menn eigi að hika í þessu máli.

Í þriðja lagi langar mig til að benda á og varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé óeðlilegt að rannsóknarnefnd sjóslysa heyri undir samgrn. vegna augljósra hagsmunatengsla í þessu máli. Er eðlilegt að þessi rannsóknarnefnd heyri undir ráðherra sem er yfirmaður þeirra starfsmanna sem rannsóknin gæti beinst að, eins og hjá Siglingamálastofnun Íslands? Er ekki eðlilegt að við breytum lögunum um þessa nefnd þannig að hún sé algerlega sjálfstæð og óháð framkvæmdarvaldinu og hafi sjálfstæðan fjárhag?

Ég vil segja að lokum, herra forseti, að það eina sem mér hefur fundist á skorta í þessari umræðu er að það sýndi sig meiri vilji af hálfu hæstv. samgrh. til að fylgja þessu máli eftir. Ég óska eftir því og skora á hæstv. ráðherra að taka sig á í þessum efnum.