Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:59:06 (3851)

1997-02-24 15:59:06# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:59]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég er satt að segja undrandi yfir því hvernig þessi umræða hefur snúist. Hér er gefið í skyn af þingmanni eftir þingmanni að ekkert hafi verið unnið á sl. árum og missirum í sambandi við öryggismál sjómanna. Þvert á móti liggja þau mál þannig fyrir að aðrar þjóðir viðurkenna að við séum þar í forustu. Ef við viljum rifja upp hvernig unnið hefur verið að því á undanförnum árum að fækka sjóslysum þá er árangurinn það góður að þeim hefur frá árinu 1989--1996 fækkað um 30% og það er ekki lítið. Ég held að það liggi líka fyrir að þeir starfsmenn samgrn. sem hafa unnið að öryggismálum sjómanna hafi notið mikils trausts erlendis, verið beðnir um að stjórna þar miklum ráðstefnum og það hefur verið leitað eftir því að við komum að þessum málum í alþjóðlegu samstarfi. Mér finnst því þetta sjóslys ekki gefa tilefni til þess að draga þær almennu ályktanir að þeir Íslendingar sem að öryggismálum sjómanna hafi komið hafi ekki sinnt störfum sínum betur en svo að ástæða sé til að veita ráðherra sérstaka áminningu út af því hvernig þeir hafa staðið sig.

[16:00]

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan að það liggur fyrir eitt tilboð upp á 30--32 millj. kr. um að ná skipinu upp. Ég vil einnig rifja upp að rannsóknir sjóslysa eru undir forræði lögreglu og dómstóla þannig að það falla auðvitað líka til fjármunir frá þessum aðilum til rannsóknar á sjóslysum. Það er ekki einungis rannsóknarnefnd sjóslysa sem kemur að þessum málum.

Ég vil að lokum aðeins segja að ég mun að sjálfsögðu íhuga þær umræður sem hér hafa farið fram og að síðustu út af því sem hv. þm. Árni Johnsen sagði, þá er mjög mikið unnið að því nú, og ég hélt satt að segja að hv. þm. væri það kunnugt, að endurskoða reglur um stöðugleika skipa og framkvæmd á eftirliti með stöðugleika skipa þannig að það mál liggur síður en svo í láginni.

Þetta mál sem við erum að ræða hér, og ég vil endurtaka samúðaróskir mínar til aðstandenda þeirra sem fórust í hinu hörmulega sjóslysi, hefur legið fyrir nú um nokkra mánuði. Það lá fyrir á sl. hausti og ef almennur vilji þingmanna hefði til þess staðið við afgreiðslu fjárlaga að afla þeirra peninga sem þurfti til þess að ná skipinu upp, þá væri nú að finna heimildir um það í fjárlögum.