Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:02:29 (3852)

1997-02-24 16:02:29# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:02]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hefur verið að koma í ljós að við Íslendingar höfum náð mjög athyglisverðum árangri í baráttunni við hinn skæða sauðfjársjúkdóm, riðu. Ekki er það síst að þakka árvekni nokkurra dýralækna og vil ég þar fyrst og fremst nefna til Sigurð Sigurðarson á Keldum. Það var þó langt í frá að honum og hans baráttuaðferðum væri á sínum tíma sýndur tilhlýðilegur skilningur þótt nú hljóti flestir að viðurkenna að hann hafi unnið íslenskum landbúnaði ómælt gagn.

Hann byggði aðferðir sínar til útrýmingar veikinni á notkun þeirra fjárhólfa sem hafði verið komið upp hér á landi vegna baráttunnar við mæðiveiki en í þeirri baráttu náðist líka einstæður árangur. Því ber brýna nauðsyn til að umræddum fjárhólfum verði viðhaldið enn um sinn vegna þess að enn hefur ekki unnist fullur sigur á riðuveikinni svo sem kunnugt er og mikilvægt er ef upp koma nýir sjúkdómar að hægt verði að staðbinda þá á þennan hátt.

Viðnám gegn riðu hófst fyrst hér á landi 1978, en veikin náði hér hámarki 1986. Það sama ár tóku stjórnvöld ákvörðun í samráði við samtök bænda um aðgerðir gegn veikinni. Sú samvinna við bændur um aðgerðir var mjög mikilvæg og má fullyrða að það sé henni að þakka sá mikli árangur sem náðst hefur og hefði hann aldrei náðst ef þeir hefðu ekki sýnt fullan skilning á málinu og þann þegnskap sem raun varð á. Svo vel hefur því miður ekki tekist til í ýmsum öðrum löndum.

Frá 1978 hefur verið fargað um 770 hjörðum eða alls um 140 þúsund fjár vegna riðu svo það er ljóst að þetta hefur verið mikil blóðtaka fyrir þjóðarbúið. Þótt reynt hafi verið að fylgja ströngum reglum um sóttvarnir við fjárskiptin hefur það samt gerst í nokkrum tilfellum að riða hefur komið upp aftur en þó er þeim mun minni hætta talin á því sem hreinsunin er ítarlegri. Þrátt fyrir að riða sé enn við lýði og hún hafi fundist t.d. á átta bæjum árið 1996, þá hefur samt náðst mikill árangur og hann er mjög mikilvægur. Þessi árangur mun auðvelda okkur í framtíðinni alla sölu á landbúnaðarafurðum til annarra landa og má í því sambandi nefna að sala á miklu magni kindakjöts til Noregs sl. haust hefði ekki tekist nema vegna þess að við gátum tryggt að það kjöt væri af riðulausum svæðum. Því er mikilvægt að okkur takist að varðveita þennan árangur sem við höfum vissulega kostað miklu til að ná.

Okkur sem fylgjumst með þessum málum brá því ekki alllítið í brún þegar fréttir komu um það í fjölmiðlum að undanþága hefði verið veitt til að selja hey af riðusvæði til að gefa hestum í Reykjavík en einhvern veginn höfðu farið forgörðum á leiðinni þau ströngu skilaboð sem fylgdu um meðferð heysins og það hafði m.a. verið selt upp í Kjós þar sem það var látið vera á víðavangi þar sem m.a. kindur gátu komist í það. Einnig hafði verið selt af sama heyi austur í Ölfus og sumir segja austur í Flóa.

Nú er ein af smitleiðum riðu talin vera með heymaurum og því gat þetta atvik sem og önnur hliðstæð haft afdrifadríkar afleiðingar. Því vil ég leggja til flutningar á heyi og túnþökum frá riðusvæðum verði hið bráðasta algjörlega bannaðir. Það væri vissulega sorglegt ef atvik á borð við það sem ég nefndi hér á undan yrðu til að sjúkdómurinn kæmi upp á nýjum svæðum og sami rófuleikurinn þyrfti að hefjast upp á nýtt.

Í Hrísey hefur nú um margra ára skeið verið starfrækt einangrunarstöð þar sem búfé sem hefur verið flutt inn til landsins, t.d. til kynbóta, hefur verið haft í sóttkví, stundum í margar kynslóðir. Er það vel því í þessum efnum þarf að fara að öllu með mikilli gát. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar það fréttist að hingað til lands séu nú flutt notuð landbúnaðartæki, t.d. hestakerrur, og hafi þeim verið skipað upp víða um land og eftirlit með sóttvörnum hafi því miður stundum verið fyrir borð borið. Það þarf að gera skýlausa kröfu um að þessum tækjum sé skipað upp í einni ákveðinni höfn, t.d. í Reykjavík, og fólk sem er sérstaklega til þess þjálfað sjái um hreinsun og sótthreinsun. Það stoðar lítið að hafa búfénað í strangri sóttkví kynslóðum saman í sóttvarnaskyni ef flutt eru inn notuð landbúnaðartæki alsett skít og dýrahárum jafnframt. Slík er opin smitleið inn í landið.