Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:07:56 (3853)

1997-02-24 16:07:56# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja athygli á því sem hún hefur hér tekið til umræðu, þ.e. hvernig staðið er að vörnum varðandi hættulega búfjársjúkdóma og hvernig við verjumst að flytja þá inn í landið.

Ég hef nokkrum sinnum rætt um það bæði hér í þessum ræðustóli og annars staðar að við þyrftum að gæta okkar við innflutning á matvælum úr landbúnaðarafurðum sem er dálítið fast sótt á um þessar mundir að opna enn frekar fyrir heldur en þegar hefur verið gert. Ég tel að það beri að fara að öllu slíku með fullri gát og hv. þm. bætir við nokkrum öðrum þáttum sem einnig þarf að huga að.

Fyrst ræddi hv. þm. að vísu um þann erfiða sjúkdóm sem bændur hafa orðið að berjast við sem er riðan í sauðfénu og það er vissulega rétt sem kom fram hjá henni að við höfum náð allgóðum árangri hvað þetta varðar þó að við höfum ekki unnið fullnaðarsigur. Þess vegna hljótum við að þurfa að gæta okkar vel í framhaldinu að grípa ekki til einhverra þeirra aðgerða eða vinna á þann hátt að við töpum þeim árangri sem við höfum náð og þá fórnum við auðvitað þar með þeim fjármunum fyrir lítið sem við höfum lagt í þessa baráttu.

Það er óheimilt eins og vitað er að flytja sauðfé úr hjörðum sem riðuveiki hefur verið staðfest í á aðra bæi. Það er einnig óheimilt að flytja hey, heyköggla, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold, sláturúrgang og hrámeti úr sláturhúsum yfir varnarlínur eða milli sveita á sýktum svæðum. En eins og hv. þm. gat um, þá eru þessi ákvæði undanþæg í vissum tilvikum og það hefur t.d. verið leyft að flytja hey af riðubæjum á önnur svæði og þá gert að skilyrði að það skuli eingöngu gefið hrossum. Vandinn er síðan sá að fylgja eftir slíkum skilyrðum. Það skortir í raun ekki reglur um smitvarnir í þessu efni, heldur það að geta treyst því þegar slíkar undanþágur eru gefnar. Auðvitað er það gert í góðri trú, í sumum tilvikum til þess að við skulum segja létta ofurlítið undir með þeim bændum sem hafa orðið að farga sínu fé, virða það að þeir eru að nytja tún sín. Þeir eru að reyna að gera sér einhverja fjármuni úr fjárfestingum sínum og þess vegna hefur þetta verið gert. En hér er vissulega bent á og dregið upp dæmi sem ber að hafa áhyggjur af. Og ef það er svo að ekki er hægt að treysta því að hey sem þannig er heimilað að flytja sé eingöngu nýtt til þeirra hluta sem leyft hefur verið, þ.e. til að gefa hrossum, þá er auðvitað hætt við að það verði að grípa til þeirrar tillögu sem hv. þm. setti hér fram, þ.e. að banna algjörlega slíka flutninga.

Þegar horft er til þess að við erum að leggja enn meiri áherslu á það við bændurna sem þurfa að farga fé þarf að gæta vel að því hvernig þeir standa að hreinsun. Það eru nýlegar reglur, hertar viðbótarreglur um varnaraðgerðir, umfangsmeiri hreinsun og sótthreinsun á húsum og umhverfi og það er einmitt lögð sérstök áhersla á hlöðuna og meðferð heysins af þeirri ástæðu að menn telja að heymaurar geti verið smitberinn. Einnig hafa verið settar upp reglur um að bændur geti verið lengur með fjárlaust bú o.s.frv. Allt kostar þetta þannig viðbótarfjármuni sem við þurfum sannarlega að hafa í huga. Á þessu stigi vil ég fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir ábendingar í þessu efni en jafnframt segja frá því hverjar þessar reglur eru og að við höfum af ýmsum ástæðum heimilað þennan flutning í góðri trú um að það sé ekki misnotað en misnotkunin getur auðvitað leitt til þess að við þurfum að grípa til harðari aðgerða.

Hv. þm. nefndi síðan einnig innflutning á notuðum landbúnaðartækjum. Við erum með ýmiss konar varnaraðgerðir uppi, bæði varðandi innflutning á gæludýrafóðri, innflutning á gærum, ull, dún, veiðibúnaði, reiðtygjum og reiðfatnaði. Reynt er að fylgja þessu öllu saman eftir en varðandi það nýjasta, að flytja inn í einhverjum mæli t.d. hestakerrur eins og hv. þm. nefndi, tæki til loðdýraræktar og fleira, þá er það niðurstaða yfirdýralæknis að það sé ekki hægt að ná utan um það mál öðruvísi en að allur innflutningurinn komi í land á einum stað. Tollaeftirlit verði hert og það yrði trúlega helst að vera á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavíkurhöfn eða einhverri einni höfn sem slíku yrði skipað upp. Þetta er minni vandi varðandi t.d. veiðibúnaðinn þar sem sótthreinsunaraðstaða er til staðar á Keflavíkurflugvelli. En yfirdýralæknir hefur átt í viðræðum við ríkistollstjóra og skipafélög um málið án þess að það hafi leitt til endanlegrar niðurstöðu. Sú umræða er í gangi og henni verður haldið áfram og reynt að fá um það samkomulag og samstöðu hvernig staðið verður að þessum innflutningi þannig að við getum haldið okkur við þessar varnaraðgerðir sem við erum að reyna að setja á.