Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:13:35 (3854)

1997-02-24 16:13:35# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:13]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp þetta mál á Alþingi og reyndar vil ég líka þakka hæstv. landbrh. fyrir skýr svör.

Hér er í raun um að ræða tvö mál. Það er annars vegar smit innan lands vegna riðu. Þar höfum við gert heilmiklar ráðstafanir, sett strangar reglur sem er fylgt eftir af bestu getu af yfirvöldum, en það sem á skortir þar er að fólk fari eftir reglunum og hlýði því sem fyrir er mælt um. Ef það væri gert, væri þessi hætta eins lítil og mannlega er mögulegt að gera hana. En við getum hins vegar ekki búið í lögregluríki og þess vegna verða þeir aðilar sem að þessum málum starfa að vera vakandi fyrir hættunni hver í sínum ranni.

Hitt málið varðar innflutninginn og þá er það innflutningurinn á notuðum landbúnaðartækjum og kannski sérstaklega hestakerrum sem vakið hefur athygli að undanförnu. Við munum eftir því fyrir nokkrum árum síðan þegar upp kom grunur um smitandi öndunarfærasjúkdóm í hesthúsahverfi á höfuðborgarsvæðinu. Menn sáu þá fyrir sér hvað hefði getað gerst og hverju hefði þurft að breyta í hestamennsku okkar ef sú hefði verið raunin að hér væri kominn upp smitandi öndunarfærasjúkdómur sem ekki var sem betur fer. Möguleikinn á þessu smiti er raunverulegur með þessum innflutningi og því þurfum við að vera mjög vakandi yfir honum. Ég hef það á tilfinningunni að hæstv. landbrh. sé kannski ekki sá ráðherra sem helst ætti að svara fyrir í þessu máli heldur ætti sá ráðherra sem fer með tollamál að vera hér til þess að svara því að það eru auðvitað tollverðirnir sem fyrstir koma að þessum tækjum þegar þau koma til landsins. Það er þá þeirra að láta vita til viðeigandi dýralæknisyfirvalda til þess að hægt sé að sótthreinsa tækin ef ekki fylgja með vottorð um að þau hafi áður verið sótthreinsuð.