Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:18:43 (3856)

1997-02-24 16:18:43# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:18]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Við Íslendingar eigum mjög heilbrigðan bústofn en vegna einangrunar landsins mjög viðkvæman og þess vegna verður að gæta allrar þeirrar varúðar og hafa allar þær varnir uppi gegn því að smit berist hér eftir ýmsum leiðum. Hér hefur fyrirspyrjandi nefnt nokkur atriði sem mér finnst ógna okkur. Það er þessi innflutningur á kerrum og sleðum og ýmsu sem ekki er meðhöndlað eins og vera ber. Hvað riðuveikina varðar þá er það auðvitað læknisfræðilegt afrek hvernig okkur hefur tekist að snúa hana niður hér og þar sýndi sig að stundum verður illt með illu út að reka.

Ég vil minnast á eitt atriði enn sem ég held við verðum að hafa líka í huga. Það er innflutningur á gæludýrafóðri. Tímarnir eru breyttir. Nú er það jafnvel svo að íslenskir smalar eða ferðamenn fá senda til sín pitsu með bíl eða flugvél og þar sem þeir sitja og éta pitsuna þá gefa þeir hundinum innflutt hundafóður. Og það sem við skulum hafa í huga í þessu efni að jafnvel þetta hundafóður er flutt inn frá Bretlandi, búið til úr dýrum, riðuveikum kúm og fær ekki þá hitameðferð sem það þarf. Svo kroppar lítið lamb gras af þúfunni.

Ég vek athygli á því að það eru mörg atriði í þessu máli sem við verðum að huga að. Það mundi fara hér mjög illa og verða dýrt landi og þjóð ef þessir sjúkdómar bærust hingað. Þannig að ég hvet bæði landbrh. og aðra þá sem koma að þessu máli að taka höndum saman um að loka öllum smitleiðum og gera sér grein fyrir því að það er hætta á ferðum í dag. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka á málinu.