Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:25:38 (3859)

1997-02-24 16:25:38# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er annars vegar spurningin um reglurnar sem menn setja sér og hins vegar hvernig farið er eftir reglunum og hvernig hægt er að framfylgja þeim. Það er auðvitað alltaf vandamálið. Ég get hins vegar tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. að það þarf að gæta sín í þessu. Við megum ekki fórna því sem við höfum áunnið. Við megum ekki fórna þeim mikilvæga árangri. Kæruleysi er ólíðandi sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og auðvitað getum við tekið undir það. En ég segi aftur að ástæðan var sú að það er verið að líta til með þessum aðilum í góðri trú um að farið sé eftir þeim leikreglum sem settar eru. En ef ekki er hægt að treysta því þá kemur auðvitað að því að það þarf að herða reglurnar og þá er því miður stundum verið að hegna fjöldanum fyrir mistök fárra. Það er því miður stundum og kannski alloft þannig en ýmislegt í þessari umræðu bendir til þess að annað sé ólíðandi.

Varðandi gæludýrafóðrið sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi þá gilda um það ákveðnar reglur og þar segir m.a. í upplýsingum frá yfirdýralækni: ,,Innflutningur á gæludýrafóðri hefur verið leyfður á undanförnum árum. Skilyrði fyrir innflutningi á dýrafóðrinu er að fyrir liggi lýsing á framleiðsluferli, fóðrið hafi verið hitað upp í 135°C við þriggja bara þrýsting í 20 mínútur og opinbert heilbrigðisvottorð.`` Kann að vera að það sé síðan erfitt að fylgja þessu eftir, að menn viti ekki að þetta sé svona nákvæmlega.

Og varðandi tækjabúnaðinn vil ég aðeins segja nánar að yfirdýralæknir hefur skrifað ríkistollstjóra og skipafélögunum bréf, gerði það á síðastliðnu hausti, þar sem spurst var fyrir um hvernig eftirliti væri háttað og hvernig hann teldi að það þyrfti að vera þannig að því væri komið í tryggan farveg. Yfirdýralæknir fór fram á að öllum notuðum tækjum tengdum landbúnaði yrði skipað upp í Reykjavík, skoðuð þar af héraðsdýralækni, þau hreinsuð ef þess þyrfti með en ávallt sótthreinsuð og tæki síðan tollafgreidd þar, en ekki send til tollafgreiðslu út um land eins og nú hefur verið. Og það hefur verið það sem hefur flækt afgreiðsluna. Vonast er til þess að þetta fyrirkomulag komist á á næstunni eftir því sem yfirdýralæknir hefur tjáð mér af viðræðum við þessa málsaðila þannig að ég vona sannarlega að málið sé að færast í betra horf.