Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 17:06:30 (3866)

1997-02-24 17:06:30# 121. lþ. 76.14 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[17:06]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég fagna þeim áhuga sem hæstv. umhvrh. og hæstv. ríkisstjórn sýnir málefnum norðurslóða og umhverfisrannsóknum á norðurslóðum og minningu mannfræðingsins og landkönnuðarins Vilhjálms Stefánssonar með flutningi þessa frv. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að efast um að sá farvegur sem hér er fundinn, að setja á fót nýja stofnun, sé sá besti fyrir málefnið sem hugsast getur því staðreyndin er nefnilega sú að íslenskar rannsóknastofnanir eru of smáar og miðað við þá fjármuni sem við setjum til rannsókna og fyrirsjáanlegt er að við setjum í rannsóknir á næstu árum, jafnvel þótt ýtrustu bjartsýni sé gætt, þá eru þær of margar. Verkefnið er því miklu frekar að sameina og stækka og styrkja núverandi rannsóknastofnanir sem við höfum á þessu sviði sem og öðrum sviðum rannsókna.

Ég fagna því hins vegar að í frv. er gert ráð fyrir því að um sé að ræða samstarfsvettvang ýmissa aðila sem stunda rannsóknir á þessu sviði. Ég minni í því samhengi á að þáltill. gekk ekki einungis út á það að stofna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar heldur jafnframt gæti verið um að ræða miðstöð Vilhjálms Stefánssonar. Ég leyfi mér hins vegar að ganga út frá því, m.a. vegna orða hv. þm. Tómasar Inga Olrich, að fræðasvið það sem hér er um að ræða spanni allt fræðasvið Vilhjáms Stefánssonar, þ.e. að það taki ekki einungis til umhverfisrannsókna og náttúrufræðirannsókna heldur einnig til mannfræði og landafræði, en það voru einmitt þau svið sem Vilhjálmur Stefánsson rannsakaði sérstaklega. En á ferðum sínum var hann auðvitað með fylgdarmenn með sér sem rannsökuðu náttúrufræðina. Og í því samhengi þá tel ég sjálfsagt að fræðasviðið spanni það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi og sem ég mundi vilja kalla náttúrusögu og mundi þá spanna sögu hafíss við strendur Íslands og viðbrögð íbúa landsins við þessum forna fjanda.

Ég er einnig mjög ánægður með að það skuli vera tekið upp í þessu frv. að kenna starfsemina eða stofnunina við virtan vísindamann eins og Vilhjálm Stefánsson og tel ég að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eigi hrós skilið fyrir þá hugmynd. Ég tel reyndar að við mættum útfæra þá hugmynd enn frekar og nefna þær stofnanir sem við rekum á þessu sviði í höfuðið á okkar frægustu vísindamönnum eins og Bjarna Sæmundssyni, Árna Friðrikssyni, Þorvaldi Thoroddsen, Benedikt Gröndal og Birni Sigurðssyni. Tel ég að vel færi á því að þetta frv. væri upphafið að slíkri nafnahefð á rannsóknastofnanir okkar Íslendinga.