Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 17:57:09 (3870)

1997-02-24 17:57:09# 121. lþ. 76.15 fundur 266. mál: #A vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (veiðar jarðeiganda) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[17:57]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar frv., sem hér er lögð til breyting á, var til umræðu á Alþingi og kom frá þingnefnd, þá var deilt um viss atriði og annað meira en það sem hér er til umræðu. Ef ég man rétt voru það einkum lagafyrirmæli varðandi veiðar á fjallref sem ollu nokkru uppnámi í þingsölum um tíma en var leyst í atkvæðagreiðslu eins og suma rekur minni til.

Það mál sem hér er flutt í formi brtt. við gildandi lög er vissulega þess efnis að ég ætla ekki að hafa á móti því að það fái skoðun í þinginu, en ég er satt að segja dálítið undrandi á hv. þm. sem flytur það að færa þetta mál inn í þingið með jafnveikum rökstuðningi og mér finnst koma fram.

Það kemur fram í grg. með þingmálinu af hálfu hv. flm. að ekki sé hægt að fullyrða að um brot á eignarrétti sé að ræða þannig að sjálfur flm. tekur ekki svo djúpt í árinni að flytja þá skoðun sem er þó meginburðarás þeirra breytinga sem verið er að leggja til. Ég get staðfest að rætt var um þessi efni í umhvn. á sínum tíma. Í þeirri umræðu tók m.a. þátt flokksbróðir hv. þm. og þáv. þm., Jón Helgason, sem skipaði sæti í nefndina af hálfu Framsfl. Verður hann vart talinn til þeirra sem vilja hnýta í eða minnka hlut bænda í samfélaginu og um niðurstöðuna var ágætt sammæli sem ég man ekki eftir að væri fyrirvari við þegar frv. var afgreitt frá þingnefndinni.