Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 18:16:06 (3876)

1997-02-24 18:16:06# 121. lþ. 76.15 fundur 266. mál: #A vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (veiðar jarðeiganda) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[18:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að hér sé loks komið upp mál þar sem erfitt er fyrir landbrh. og umhvrh. að gera upp við sig hvorum megin hann á að standa af því að stundum hefur verið talað um að það hlyti að vera uppi fullt af málum sem væri ágreiningsefni milli þessara málaflokka. Í mínum huga hefur það hins vegar ekki verið svo. Það hafa ekki komið mörg mál upp þess eðlis að ég hafi talið að það væri vandamál fyrir einn og sama manninn að gegna þessum tveimur ráðuneytum eða þessum tveimur málaflokkum, en vissulega kunna að koma upp efni þar sem áherslur eða hagsmunir kunna að skarast. Ég tel þó reyndar að svo sé ekki í þessu tilfelli

Ég verð að segja strax í upphafi að ég tel að ef þetta frv. yrði samþykkt þá yrði það til mikils tjóns fyrir veiðisjóðinn svokallaða og þau verkefni sem honum er ætlað að sinna og þá jafnframt það hlutverk sjóðsins að afla upplýsinga fyrir jarðeigendur, fyrir landeigendur um hvers virði þeirra eigin jarðnæði er eða eignarland og lendur og hvernig þeir geta best nýtt sér það land. Þetta vildi ég láta koma fram strax í upphafi.

Ég ætla ekki að fara í ítarlegar deilur, hæstv. forseti, við hv. 1. flm. frv. eða aðra sem hér hafa talað um eignarréttinn. Ég tel nauðsynlegt að hann sé virtur og skoðaður í þessu tilefni líka, þannig að ég er síður en svo að hafa á móti því að aftur sé farið yfir það mál ef hér er talið að brotið sé eða níðst á eignarrétti, þá þarf auðvitað að taka það mál til sérstakrar athugunar. En eins og fram kom hjá hv. seinasta ræðumanni, hv. þm. Árna M. Mathiesen, þá var það mál einnig tekið til athugunar þegar málið var síðast til umræðu og það má kannski skjóta inn hér að lögin sem heyra undir umhvrn., og þá þar með þann sem hér stendur sem umhvrh., voru tilkomin fyrir mína tíð í umhvrn. Um þetta urðu gríðarlega miklar umræður á þingi á sínum tíma þegar þau voru samþykkt. Þá hafa auðvitað ýmsir þættir verið skoðaðir ítarlega og vafalaust einnig hvað varðar þessi ákvæði um eignarréttinn.

Mig langar að rökstyðja frekar það sem ég nefndi áðan með veiðisjóðinn. Það hefur náðst bærilega góð sátt um hvernig staðið er að framkvæmd þess máls, um innheimtu í sjóðinn. Hún hefur gengið vel. Það urðu nokkrar athugasemdir í fyrsta skipti sem gjald fyrir veiðikortin var innheimt en nú seinast gerðist þetta allt með eðlilegum hætti og komu ekki miklar athugasemdir. Búið var að ná sáttum um þau atriði sem höfðu helst valdið ágreiningi þegar þetta gekk fyrst yfir. Og það verður að minna á að gjaldið fyrir veiðikortin er ætlað að nýta til rannsókna og stýringar á veiðum villtra dýra og fugla. Því tel ég eðlilegt að það gjald greiði allir sem eins og lögin kveða á um ganga til veiða, á hvaða landi svo sem þeir gera það. Þar eru allir að leggja til sjóði sem eiga að ganga til þessara mikilvægu verkefna og það væri mjög erfitt að ætla að brjóta það upp með þeim hætti sem hér er gert.

Þá langar mig að skjóta hér inn í af því að frv. gerir ráð fyrir að jarðeiganda sé heimilt að stunda veiðar á villtum dýrum samkvæmt lögunum á eigin jarðnæði án þess að veiðikort þurfi til. Þá er spurningin auðvitað sú að það á vafalaust við um einhverja jarðeigendur, bændur og aðra sem eiga eignarlendur, að þeir veiði fyrst og fremst á sínu eigin landi. En sjálfsagt er hitt eins við búið að það komi fyrir að þeir þurfi að veiða --- ég segi nú þurfi að veiða, á öðrum löndum. Í fyrsta lagi gera þeir það ef þetta eru veiðimenn sem ganga t.d. til refaveiða, þá eru þeir ekki eingöngu að veiða refi á sinni eigin jörð heldur þvert á móti víðar. Og ef það færi nú svo að þeir ætluðu samt að veiða ref á sinni eigin jörð, yrðu fyrir því óláni að særa hann en ekki drepa, refurinn hlypi yfir landamærin yfir á jarðeign næsta eiganda, þá gætu þeir ekki gengið áfram til verksins öðruvísi en sækja sér sitt veiðikort og greiða fyrir það í millitíðinni, hefðu þeir ekki haft hug á því áður. Þetta er nú kannski sagt bæði í gamni og alvöru, en þess vegna tel ég að eðlilegt sé að allir greiði fyrir þessi veiðikort og að ekki verði jafnað til eignarréttarins í því efni sérstaklega, þó að ég ætli ekki hafa á móti þeirri athugun sem hlýtur að fara fram í sambandi við meðferð þessa frv. sem hér liggur fyrir og væntanlega verður sent nefnd til skoðunar.

Ég hygg líka, af því að ég orðaði það aðeins áðan, að allt við vitum meira um stærð veiðidýrastofna, hvernig þeir haga sér, hvar þeirra er helst að vænta og hvar þeir eiga sér aðsetur, allar þessar upplýsingar séu einnig í þágu jarðeigandans, þær séu í þágu jarðeigandans, bóndans í þessu tilviki, og ég tala fyrir því í sambandi við afkomu bænda og möguleika þeirra að nýta sér sem best eignir sínar að þeir eigi að huga til þess að eiga gott samstarf og góð samskipti við áhugamenn um veiðar og að nýta sér þannig sinn eignarrétt með því að semja við þá um t.d. afnot, um gjald fyrir afnot fyrir að ganga um land til veiðiskapar, líkt og gerist með veiðar í ám og vötnum og er fyrir löngu komin fullkomin hefð á.

Ég held að varla verði hægt að jafna því til fjárkúgunar að bóndinn borgi árlega 1.500 kr. eða svo fyrir veiðileyfakortið sitt til þess að geta stundað veiðar þar sem honum þá jafnframt sýnist og almennt er heimilt að gera en ekki bara á sínu eigin landi, takmarkaður af því ef þetta yrði samþykkt eins og hér liggur fyrir.

Allra seinast langar mig að biðja hæstv. forseta að athugað verði hvar eðlilegt er að þetta frv. verði tekið til umfjöllunar. Ég ætla ekki að leggja neitt til, andstætt við það sem flm. gerði. Hann leggur til að það sé landbn. og þar sem hæstv. núv. forseti er jafnframt formaður landbn., þá felst í orðum mínum ekki neitt vantraust á hann eða þá ágætu nefnd til þess að fjalla um málið en ég bið forseta um að skoðað verði hvað sé eðlilegt í þessu efni því ég er ekki sammála hv. flm. um að málið eigi alls ekkert erindi til umhvn., heldur fyrst og fremst til landbn., og tel að það væri eðlilegt að umhvn., ef svo færi að hún fengi málið, sendi það þá til landbn. til umsagnar eða athugunar eins og fram kom hjá hv. þm. Árna Mathiesen hér áðan. En að það eigi ekki erindi til umhvn. tel ég vera rangt vegna þess að það er það mikil breyting á eðli sjóðsins, hlutverki hans og verkefni ef þetta frv. verður samþykkt. Þá er ég ekki að tala um einhverjar krónur sem kynnu að tapast í sjóðinn sem er auðvitað mikilvægur heldur miklu frekar það að ég held að það brjóti mjög upp samstöðuna um sjóðinn, brjóti mjög upp það samkomulag sem náðst hefur um hvernig staðið er að greiðslum í hann, og muni torvelda mjög alla innheimtu. Hættan er því sú að sjóðurinn yrði í það minnsta skemmdur, ef ekki eyðilagður, og þá væri illa farið fyrir því mikilvæga verkefni sem hann hefur að sinna rannsóknum og stýringu á veiðum villtra dýra og fugla.